Faglegt efni
Netþjónabú – skattalega staða
Nýverið var samþykkt breyting á tekjuskattslögum, sem miðar að því að skýra skattalega stöðu netaþjónabúa hér á landi. Í alþjóðlegum skattarétti gildir sú almenna regla að aðilar, sem afla tekna í öðru ríki geta myndað svokallaða fasta starfsstöð vegna starfsemi sinnar í því ríki. Í sinni einföldustu mynd má segja að meginreglan sé að föst starfstöð sé staður þar sem aðili aflar sér tekna, jafnvel þó að um skamman tíma kunni að vera að ræða. Þær tekjur sem aflað er í gegnum slíka fasta starfsstöð eru almennt skattskyldar í því ríki sem starfsstöðin er.
Það þarf ekki mikið til svo að slík starfsstöð verði til og í sjálfu sér getur tilvist netþjóns aðila í öðru ríki verið fullnægjandi til þess að sá netþjónn sé talinn föst starfsstöð, í skilningi áðurnefndrar meginreglu. Þær tekjur sem aflað er í gegnum þann netþjón eru þá taldar skattskyldar tekjur í því ríki.
Sé þessum sjónarmiðum beitt nokkuð strangt, er ljóst að erfitt getur verið að laða til sín erlenda aðila til að reka netþjónabú, enda myndi í slíkri skattskyldu felast skylda til að skila framtali í viðkomandi ríki, í einhverjum tilvikum skylda til að skila virðisaukaskatti, sem og mögulega tvískattlagning tekna, ef ekki er fyrirliggjandi tvísköttunarsamningur, sem takmarkar það.
Íslenskar reglur hafa ekki verið skýrar í gengum tíðina, að því er varðar fastar starfsstöðvar í skattarétti. Í framkvæmd má ráða að íslensk skattyfirvöld hafa að mestu leyti verið samstíga við alþjóðlega þróun á þessu sviði. Vandamálið er þó að sú þróun á oft í erfiðleikum með að halda í við örar tæknibreytingar og mikilvægt getur því verið að viðhalda landsreglum samhliða.
Erlendur aðili, sem beint eða óbeint aflar tekna með rekstri netþjóns eða netþjónabús hér á landi, kann því að bera skattskyldu vegna þessara tekna. Hér mætti til einföldunar nefna vefverslun erlends aðila sem vistuð er á netþjóni hér á landi, þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki frekari tengsl við Ísland.
En staðreyndin er sú að dæmin eru sjaldnast svo einföld, heldur þjóna netþjónar oft mjög afmörkuðum tæknilegum þáttum, sem ekki eru svo augljóslega beintengdir tekjuöfluninni sem slíkri. Hér má nefna sjálfstæðar afritunarstöðvar, netþjónar sem hafa þann tilgang að miðla tilteknum gögnum eða netþjónar sem grafa eftir rafmyntum (e. e-mining). Í slíkum tilfellum getur reynst erfitt að skera út um það hvort sú starfsemi kunni að leiða til skattskyldu hér á landi.
Það er því ánægjulegt að löggjafinn hafi stigið það skref að setja reglur um fastar starfsstöðvar, þar sem m.a. er að finna skýringu á skattalegri stöðu netþjóna hér á landi.
Í stuttu máli er kveðið á um að umráð erlends aðila á netþjóni, sem rekinn er hér á landi og stendur ekki í beinu sambandi við meginstarfsemi viðkomandi, teljast ein og sér ekki vera föst starfsstöð. Þessi regla eyðir verulegri óvissu sem fram til þessa hafði verið til staðar. Slík óvissa dregur auðvitað úr vilja aðila til að fjárfesta í þessum geira hér á landi.