Faglegt efni
Siðleysi gjaldeyrishafta
Vangaveltur um þá aðstæður sem gjaldeyrishöft búa fólki og fyrirtækjum hér á landi. Má halda því fram að í hafta samfélagi ríki ákveðið siðleysi?
Eðlilega eru núgildandi gjaldeyrishöft mikið til umræðu og er það ánægjulegt að atvinnulífið sé loks að koma þeim skilaboðum á framfæri með skýrum hætti að nóg sé komið. Er það í raun nokkuð ótrúlegt hve þolinmæðin hefur varað lengi. Rekstrarumhverfi hér á landi hefur verið algerlega óásættanlegt að þessu leyti og ber í raun að þakka þeim alþjóðlegu fyrirtækjum sem enn hafa ekki ákveðið að flytja sig úr landi þrátt fyrir ærið tilefni.
Nýlega birtust fréttir um að gjaldeyrishöftin brytu ekki gegn EES samningnum. Tilefnið var svar utanríkismálastjóra Evrópusambandsins við fyrirspurn dansks fulltrúa á Evrópuþinginu. Skv. fréttum kom fram í svarinu að EFTA dómstóllinn hefði staðfest að þessar aðgerðir væru lögmætar. Rétt er að rifja upp að í forsendum þess dóms kom sérstaklega fram að til þess að gjaldeyrishöft, sem verndarráðsstöfun skv. 43. gr. EES samningsins, séu réttlætanleg þurfi slík ráðstöfun að vera í samræmi við markmið sitt og ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til þess að ná því markmiði.
Rétt er að nefna nokkur dæmi um áhrif og framkvæmd gjaldeyrishafta hér á landi, þar sem færa má rök að það orki tvímælis að vera innan þessa meðalhófs:
Dæmi 1:
Íslenskur aðili hyggst stofna félag erlendis (innan EES) og leggja því til sem nemur kr. 10.000 í hlutafé. Þessi fyrirætlun hans er bönnuð og þarf hann að sækja um sérstaka undanþágu til Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn veitir hugsanlega slíka undanþágu ef fyrir liggur að þessi Íslendingur heitir því fyrir hönd hins erlenda félags að skila gjaldeyri til Íslands og Seðlabanka Íslands líst á rekstraráætlun hans, sem honum er gert að kosta..
Dæmi 2:
Íslenskur aðili á sem nemur kr. 10.000 í erlendum gjaldeyri, evrum, og vill hann nota þennan gjaldeyri, sem er jú hans eign, til að fjárfesta í evrópskum hlutabréfum til þess að dreifa áhættu sinni en hann er að reyna að spara til elliáranna. Honum er þessi ráðstöfun bönnuð og getur hann annað hvort haldið þessum erlenda gjaldeyri á lágum vöxtum hjá íslensku fjármálafyrirtæki eða skipt honum í krónur.
Dæmi 3:
Íslenskur einstaklingur starfar hjá erlendu stórfyrirtæki og honum býðst að kaupa hlutabréf fyrir sem nemur kr. 10.000 skv. kauprétti í erlenda fyrirtækinu, sem er hluti af hans starfskjörum eins og hjá öðrum starfsmönnum. Honum er þessi ráðstöfun bönnuð.
Halda mætti lengi áfram en velta má því upp hvort áhrif og framkvæmd gjaldeyrishaftanna skv. lögum um gjaldeyrismál standist forsendur EFTA dómstólsins. Vandamálið kann að vera að í þeim tilfellum sem meðalhófið er brotið þá hafa viðkomandi ekki efni á að láta á það reyna hvort verið sé að brjóta á þeim. Það er kannski einmitt sú sorglega staða sem leiðir af gjaldeyrishöftunum, að efnaminna fólk og minni fyrirtæki eru sett í töluvert verri stöðu. Þessir aðilar eru t.a.m. verr í stakk búnir til þess einfaldlega að flytja úr landi og losa sig undan þeirri frelsissviptingu sem fólgin er í gjaldeyrishöftum eða láta reyna á rétt sinn hjá þar til bærum stofnunum.
Ef horft er framhjá brotum á EES samningnum má líka velta því upp hvort siðlaust sé að halda uppi gjaldeyrishöftum í núverandi horfi?