Faglegt efni

Rannsóknarheimildir yfirvalda

16.6.2014

Á síðustu vikum hafa rannsóknarheimildir sérstaks saksóknara hlotið töluverða umræðu, einkum vegna þess að í ljós kom að embættið hafi brotið á réttindum sakborninga. Þannig komst upp um að samtöl sakborninga við verjendur sínar höfðu verið tekin upp, og ekki gætt að því að þeim yrði eytt, sem er hreint og klárt brot á réttindum sakborninga.

Þau grundvallarmannréttindi, sem varða friðhelgi einkalífs og réttindi sakborninga, sem m.a. eru  tryggð í stjórnarskrá, eiga einkum og sér í lagi við þegar gefur á bátinn. Þannig má segja að í því andrúmslofti sem hér ríkti á árunum eftir hrun, hafi falist ákveðin prófraun á okkar samfélag. Að öllum líkindum þarf nokkur tími að líða áður en greindar verða niðurstöður þeirrar prófraunar, en nokkur teikn eru á lofti um að endanlegur vitnisburður verði mögulega ekki eins fagur og undirritaður hefði fyrirfram vonað.

Í framhaldi af þessari umræðu er vert að setja heimildir skattyfirvalda til upplýsinga og gagnaöflunar í samhengi, en í 1. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003 segir:

Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni.

 Þessi heimild skattyfirvalda er sett til að tryggja það tekjuöflun ríkisins, sem er jú til almannaheilla. En það sem rétt er að vekja sérstaka athygli á, er hversu víðtækar þessar rannsóknarheimildir eru. Raunar er heimildin án teljandi takmarkana.

Fyrir nokkru var tekist á um þessar rannsóknarheimildir skattyfirvalda í sk. PIP-brjóstapúðamáli. Þar hafði lögmaður tekið að sér mál fjölda skjólstæðinga sem höfðu lent í þeim hremmingum að fá gallaða brjóstapúða hjá tilteknum lækni. Sá læknir var ennfremur grunaður um að hafa ekki talið allar tekjur sínar fram með réttum hætti og sætti því rannsókn skattyfirvalda.

Skattyfirvöld kröfðust þess að fá yfirlit yfir nöfn og kennitölur allra þeirra sem leitað hafa til lögmannsins eftir lögfræðiaðstoð vegna viðskipta við þennan tiltekna lækni, vegna rannsóknarinnar. Lögmaðurinn neitaði að afhenda þau gögn, með vísan til þess að lögmaður ber þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu, eins og segir í lögum um lögmenn, nr. 77/1998. Mál þetta var ennfremur nokkuð sérstakt, þar sem upplýsingar lögmannsins um skjólstæðing hans vörðuðu heilsu þeirra og voru mjög persónulegs eðlis.

Málið rataði fyrir dóm, sbr. hrd. 347/2012, og er skemmst frá því að segja að niðurstaða málsins var sú að þagnarskylda lögmannsins gagnvart sínum skjólstæðingum skyldi víkja. Vísaði dómurinn m.a. þeirra víðtæku skyldna sem orðalag lagaákvæðisins bera með sér, sem og að um væri að ræða sérlagaákvæði, sem gengi framar almennri þagnarskyldu í lögum um lögmenn.

Það sem maður saknar í umfjöllun dómsins er mat á þeim hagsmunum sem um var að tefla í málinu. Annars vegar hagsmuna ríkissjóðs af því að ná fullum sköttum á þeim tekjum sem hinn grunaði hafði mögulega ekki talið réttilega fram. Hins vegar eru það réttindi borgarans af því að geta leitað á náðir lögmanna, í því trausti þeirra samband sé varðað trúnaði, lögum samkvæmt.

Trúnaðarsamband lögmanna við skjólstæðinga sína eru mikilvæg réttindi, sem þjóðfélög sem við viljum bera okkur saman við halda í heiðri, þó þau kunni að sæta takmörkunum. Með því að rýra þetta trúnaðarsamband má halda því fram að verið sé að kasta meiri hagsmunum á glæ fyrir minni.

Skattyfirvöld hafa auðvitað einnig víðtækar heimildir til öflunar yfirlita yfir bankareikninga og greiðslukortanotkunar hins grunaða, sem ætti að öllu jöfnu að geta verið næg undirstaða í almennum skattrannsóknum. Ef málið skýrist ekki á slíkum grundvallargögnum um hagi manna, má velta því fyrir sér hvort réttlætanlegt sé að leggjast í frekari rannsóknir og gagnöflun.

Á það hefur verið bent að trúnaðarskyldur hvíla einnig á starfsmönnum skattyfirvalda, því eigi borgarar að geta verið öruggir um þau málefni er varðar þá, þó að skattyfirvöld afli sér ganga um þá, enda sé sú gagnaöflun á málefnalegum grundvelli. En er borgarinn svo öruggur? Á árinu 2008 aflaði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sér húsleitar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, í því skyni að afla gagna er vörðuðu meint skattalagabrot einstaklings. Var sú húsleitarheimild staðfest af Hæstarétti, sbr. hrd. nr. 21/2008.

Þannig má ráða að yfirvöld, sem ekki eiga eins greiðan aðgang að gögnum og upplýsingum og skattyfirvöld eiga, gætu allt að einu komið höndum yfir gögn, með slíkum og afar óhefðbundnum leiðum, svo ekki verði fastar kveðið að orði.

Íslenskum yfirvöldum er falin mikil ábyrgð, með svo víðtækum rannsóknarheimildum sem við þekkjum hér á landi. Þá gildir ekki sú regla sem við þekkjum úr öðrum ríkjum, sem hindra að gögn sem aflað er með ólögmætum hætti komast að í sakamáli. Því verður að gera þá kröfu að það sæti sérstakri rannsókn ef aðilar hafa misfarið með þetta vald sitt. Þar á ekki að horfa til þess hvort möguleg brot í starfi kunni að vera fyrnd, enda snýst slík rannsókn um ríkari hagsmuni en að knýja fram refsingu.

Í slíkri rannsókn fælist nefnilega skoðun á því, hvort samfélag okkar búi svo um innviði sína að grunnréttindi samfélagsins séu virt, þegar hvað mest reynir á.