Faglegt efni

Atvinnulífið og eftirlitsstofnanir

3.9.2014

Flestir þekkja þá vísireglu að góð samskipti geta heiminn bætt. Má segja að þetta geti átt við í nánast öllum tilvikum og má heimfæra á ótalmörg dæmi, stór sem sem smá. Oft er hins vegar mun auðveldara að tala um bætt samskipti án þess að ráða í reynd bót á þeim. Er þá sökudólgurinn oft á tíðum áralöng venja sem útilokað virðist að brjóta upp.

Samskipti opinberra stofnanna, þó sérstaklega eftirlitsstofnanna eins og skattyfirvalda og (vonandi tímabundið) Seðlabanka Íslands við atvinnulífið mætti bæta umtalsvert án þess að til þyrfti að koma stórt átak eða reglubreytingar. Tekið skal sérstaklega fram að erfiðleikar í samskiptum þeirra við fyrirtækin er að sjálfsögðu ekki eingöngu stofnunum að kenna heldur hlýtur sökin að einhverju leyti að liggja hjá fyrirtækjunum líka.

Þessar stofnanir eiga það sameiginlegt að hafa það hlutverk að túlka verulega flókna löggjöf sem hefur hins vegar umtalsverð áhrif á daglegt viðskiptalíf. Fyrirtækin þurfa að skilja þessar leikreglur vel og geta hagað sér eftir þeim eftir bestu vitund, enda felst veruleg áhætta í því að fara ekki eftir reglum, þrátt fyrir góða trú. Þar sem fyrirtækin þurfa að laga sig að þessu regluverki hlýtur að vera verulega mikilvægt að túlkun þeirra sé eins gagnsæ og auðið er. Opin samskipti um reglurnar og birting þessara stofnana á túlkunum sínum er lykilatriði í þessu efni. Ef fyrir liggur hver túlkunin er virðist verulega sérkennilegt að hún liggi ekki fyrir opinberlega þannig að fyrirtækin geti gengið út frá henni. Eru þá umtalsvert meiri líkur á að þau fari eftir henni auk þess að spara tíma og fjármuni sem fara annars í að leysa úr viðfangsefni, sem þegar hefur verið leyst úr. Þann tíma og þá fjármuni sem þar sparast mætti svo nýta á annan uppbyggilegan hátt.

Skortur á opinberri birtingu úrlausna sem hafa fordæmisgildi og skortur á útgáfu efnislegra skoðana þessara stofnana er það sem helst kemur í veg fyrir að fyrirtæki geti farið eftir túlkunum þeirra. Þetta viðheldur flækjustigi reglnanna að óþörfu. Í flestum tilvikum liggur nokkuð ljóst fyrir hvar helstu túlkunarvandamálin liggja og hvar slík túlkun hefur hve víðtækust áhrif. Sem dæmi má nefna þegar upp komu deilur um svokallaða öfuga samruna annars vegar og úttektir úr einkahlutafélögum hins vegar. Réttarágreiningur eftirlitsstofnanna við atvinnulífið um ofangreind atriði hafa tekið umtalsverðan tíma og oft og tíðum leitt af sér gríðarlega háa endurálagningu skatta, oft mörg á aftur í tímann. Skattgreiðendur eru eftir sem áður í flestum tilvikum í góðri trú um að verið sé að fara að þeim leikreglum sem settar hafa verið. A.m.k. heldur því varla nokkur maður fram að í þessum tilvikum hafi svo gríðarlegur fjöldi skattgreiðenda ákveðið að sniðganga skatta af ásetningi, með þeirri framtíðaráhættu sem því fylgir.

Um þetta var m.a. fjallað í skýrslu nefndar, sem skipuð var af fjármálaráðherra, og bar heitið Stjórnsýsla skattamála, athugun á stjórnsýslu skattamála með tilliti til réttaröryggis, jafnræðis og skilvirkni, frá því í desember 2013. Vakti þessi skýrsla ekki mikla athygli en hún bendir á atriði sem verulega mikilvægt er að fylgja eftir.

Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands er síðan að þessu leyti kafli í réttarsögu Íslands sem flestir vilja örugglega að sé fljótt lokið og gleyma um leið og þeim árangri er náð.