Faglegt efni
Eiga yfirvöld að sýsla með þýfi?
Í síðustu viku bárust fregnir af því að skattrannsóknarstjóri hefði sent fjármálaráðuneytinu greinargerð, þar sem fjallað er um gögn sem talin eru geta gefið vísbendingar um möguleg skattaundanskot Íslendinga. Er það nú verkefni ráðuneytisins að meta hvort kaupa eigi gögnin.
Nú skal ekki fullyrt hvað fram kemur í umræddum gögnum, en ætla verður að þetta séu sambærileg gögn þeim sem fleiri evrópskum yfirvöldum hafa boðist til kaups um nokkurt skeið. Er þar undantekningarlítið um að ræða persónugögn sem yfirvöld eiga ekki kost á að afla og einhver óprúttinn aðili hefur aflað með ólögmætum hætti.
Ég hef enga sérstaka samúð með þeim sem með ólögmætum hætti koma sér undan því að greiða lögboðna skatta og gjöld. Það er gott og æskilegt að haft sé eftirlit með slíkri brotastarfsemi og að þeir sem brjóti af sér hljóti þá refsingu sem lög mæla fyrir um, í kjölfar réttlátrar málsmeðferðar. Þar gegna skattyfirvöld mikilvægu eftirlitshlutverki og mikilvægt að þeim sé skapaður grundvöllur til að standa að rannsókn slíkra mála.
Efni umfram form
Það er alþekkt í skattamálum að lítið tjóir að koma sér undan skattgreiðslum, með því að sveipa viðskipti formi, sem gefur til kynna að þau hafi átt sér stað með öðrum hætti en raun bar vitni um. Skattyfirvöld horfa réttilega í gegnum slíkan blekkingaleik og horfa þar til efnis viðskipta umfram forms þeirra.
Sem dæmi um þetta má nefna úrskurð yfirskattanefndar nr. 30/2009. Í því máli hafði einstaklingur keypt hlutafé í félagi á kr. 4.500.000. Reksturinn gekk ekki sem skyldi og seldi hann að lokum alla hlutina í félaginu til bróður síns á kr. 1. Við það innleystist sölutap á bréfunum, sem hann dró frá söluhagnaði sem hafði myndast í öðrum viðskiptum, í samræmi við löggiltar frádráttarheimildir.
Skattyfirvöld töldu viðskipti bræðranna með hlutaféð vera málamyndaviðskipti og horfðu framhjá þeim. Með því að horfa til efnis umfram form ályktuðu skattyfirvöld að bréfin hafi í reynd verið verðlaus og því hefði ekki verið um raunveruleg viðskipti að ræða heldur hefði verið um afskrift bréfanna að ræða. Féll þar með sölutapið niður og var því ekki unnt að draga það frá öðrum söluhagnaði.
Form umfram efni
Víkur þá sögunni að viðskiptum skattyfirvalda með hin ólögmætu gögn.
Er einhver raunverulegur munur á því að yfirvöld sjálf afli gagna með ólögmætum hætti, eða kaupi gögn sem þau mega vita að hafi verið aflað með ólögmætum hætti?
Ef við samþykkjum að beita megi þessari aðferðafræði geta skattyfirvöld þá ekki allt eins fengið hérlenda hakkara til þess verks að njósna um borgarana? Svo framarlega sem það séu ekki opinberir starfsmenn sem brjóti af sér, því sjáið til, það þarf að gæta að forminu.
Með óskeikula réttlætiskennd í brjósti og göfugan tilgang að leiðarljósi hljótum við að beita sömu meðulum á öðrum vígstöðvum. Sérstakur saksóknari hefur í gegnum tíðina fengið úrskurði til að hlera Pétur og Pál, en hann má þó ekki hlusta á samtöl þeirra við verjendur (sem einhverjir vilja meina að hann hafi slysast til að gera) og ber að eyða upptökum af slíkum samtölum án tafar. Gæti ekki einhver tekið að sér að hlusta á samtöl verjenda og skjólstæðinga áður en þeim er eytt? Þær upplýsingar sem þar koma fram mætti svo selja yfirvöldum, svo framarlega sem við gætum formsins, að sjálfsögðu.
Hvað með mikilvægar upplýsingar sem prestar, sálfræðingar og geðlæknar búa yfir? Þessar upplýsingar liggja beinlínis undir skemmdum, fái ríkið ekki þeirra notið. Þeir sem endurvinna pappír, nota ekki glóperur og borga sína skatta hafa ekkert að fela og þurfa því ekkert að óttast.
Ekki þessa hótfyndni!
Nú kann einhver að segja að ég sé með útúrsnúninga í þessari tilraun minni til hótfyndni. En með því að setja þetta álitamál í þetta samhengi tel ég að hægt sé að varpa ljósi á þá siðferðislegu spurningu hvort nauðsynlegt sé að staldra við.
Stóra spurningin hlýtur að vera; viljum við búa í samfélagi þar sem eftirlitsaðilar starfa í slíkum tvískinnungi að kaupa gögn sem glæpamenn hafa aflað með ólögmætum hætti og innihalda fjárhagsupplýsingar, sem leynt eiga að fara lögum samkvæmt?
Helgar hinn göfugi tilgangur það bitra meðal? Þurfum við þá nokkuð að láta sem hér sé borin virðing fyrir friðhelgi einkalífs, í orði sem og á borði?
Á það hefur verið bent að þýsk yfirvöld hafi valið að afla gagna um þegna sína með þessum hætti, þegar þau keyptu sambærileg gögn árið 2010. Ekki verður séð að sú staðreynd geti að neinu leyti verið nýtt sem rökstuðningur fyrir því að fara sömu leið. Aðferðin er alveg jafn vafasöm, þótt aðrir hafi beitt henni.