Faglegt efni

Nýsköpunarlandið og kaupréttir

7.11.2014

Íslenskir stjórnmálamenn hafa löngum talað mikið og fallega um mikilvægi nýsköpunar á Íslandi og ýmislegt hefur sannarlega verið gert til að bæta umhverfið hér á landi á undanförnum árum. Betur má þó ef duga skal. 

Reglur um kauprétti hér á landi eru sérstaklega óhagstæðar því að þær geta leitt til umtalsverðrar skattlagningar án þess að nokkur hagnaður hafi orðið til. Núverandi regla byggir þó á nokkuð styrkum stoðum og styðst við þá meginreglu skattaréttar að móttaka (veraldlegra) gæða frá öðrum sé skattskyld hvort sem gæðin eru í formi beinna peninga eða í öðru formi. Þannig byggir skattlagning kauprétta á því að afhentir séu hlutir sem hafa hærra verðmæti en kaupverð og því sé mismunurinn skattskyldur sem laun, enda hlutirnir fengnir á „afslætti“ vegna launþegasambands milli kaupréttahafa og þess fyrirtækis sem hann vinnur hjá. Ef engin slík regla væri til staðar gæti vinnuveitandi í raun selt starfsmanni hluti í félagi á undirverði sem launauppbót og starfsmaðurinn greiddi af sölu hlutanna 20% fjármagnstekjuskatt, en ekki 37–46% launaskatt. Með því borgaði launamaður lægri skatta en ella af tekjum sem í raun væru launatekjur og atvinnurekandi sparaði sér launatengd gjöld. Af augljósum ástæðum hníga því sterk rök að því að koma í veg fyrir að skattar séu sniðgengnir með kauprétti til starfsmanna og styðst það við meginreglur skattaréttar sem fyrr segir. Að mati undirritaðs er spurningin hins vegar ekki hvort skattleggja eigi þau verðmæti sem felast í kauprétti — sem ætti að gera — heldur á hvaða tímapunkti slík skattlagning fari fram.

Núverandi reglur gera ráð fyrir að skattlagning miði við þann tímapunkt sem kaupréttur er nýttur enda er það sá tímapunktur sem skattaðili móttekur verðmætin. Eins og fyrr segir styðst slík skattlagning almennt við góð rök, en auk þess koma önnur sjónarmið til skoðunar í tilviki kauprétta sem starfsmönnum bjóðast hjá vinnuveitanda.

Í fyrsta lagi er í mörgum tilvikum um að ræða hluti sem eru illseljanlegir öðrum og á þetta sérstaklega við í tilviki nýsköpunarfyrirtækja. Ofangreint viðmið um skattlagningu kauprétta tekur ekkert tillit til slíks, enda horfir hún eingöngu á hlutlæga mælikvarða, þ.e. annaðhvort gangverð í öðrum viðskiptum — hvort sem slík viðskipti bjóðast kaupréttarhafa eða ekki — eða bókfærðs innra virði fyrirtækis, en slíkt virði getur verið allt annað en markaðsvirði. Almennt er t.d. óumdeilt að mikill munur er á verðmæti 40% hlutar í fyrirtæki eða 60% hlutar, vegna atriða sem hafa með hvorugan framangreindra mælikvarða að gera.

Sé staðan sú að hlutirnir séu seljanlegir á annað borð eru það augljóslega vafasöm skilaboð til fjárfesta, kröfuhafa og annarra aðila, sem eiga hagsmuna að gæta gagnvart fyrirtæki, ef starfsmenn (þá oftast lykilstarfsmenn) selja umsvifalaust hluti sem þeir kaupa í fyrirtækinu. Hvernig eiga aðrir fjárfestar að horfa á félagið ef starfsmenn þess hafa ekki trú á vexti þess? Um leið og núverandi skattlagning kauprétta á sér skynsamlegar stoðir í meginreglum skattaréttar hamlar hún notkun kauprétta í þeim tilvikum sem þeir eiga einna helst rétt á sér.

Spurningin er því sú: Hvernig getum við komið í veg fyrir að kaupréttur sé misnotaður án þess að reglurnar setji notkun slíkra rétta of þröngar skorður við að nota þá eðlilegu og góðu hvata sem í kauprétti geta falist?

Einföld leið væri að leyfa handhafa kaupréttar að velja milli tveggja leiða í skattlagningu. Annaðhvort greiðir viðkomandi launaskatt af mismuni verðmætis og kaupréttarverðs við nýtingu kaupréttar, líkt og núverandi reglur gera ráð fyrir, eða viðkomandi greiðir launaskatt af endanlegum söluhagnaði þegar hann innleysir þann hagnað. Í þessu felst, að í stað þess að borga launaskatt af nýtingu kaupréttar löngu áður en starfsmaður fær nokkra fjármuni í hendurnar, þá greiðir hann hærri skatt við innlausn hagnaðarins en ella fyrir að fresta skattlagningu verðmætanna, að því gefnu að væntingar starfsmannsins um aukin verðmæti hinna keyptu hluta gangi eftir. Með þessu mætti sætta þau meginsjónarmið sem búa að baki núverandi reglum og þau sjónarmið sem vilja gera starfsmönnum kleift að eignast hlut í rekstri þeirra fyrirtækja sem þeir vinna hjá, án þess að greiða skatt löngu áður en þeir fá peninga fyrir þann hlut. Ef launþegar velja seinni kostinn yrðu arðgreiðslur vegna þeirra hluta sem keyptir eru með kauprétti skattlagðar sem laun, en þannig yrði komið í veg fyrir að reglan væri misnotuð.

Vilji Ísland státa sig af því að vera góður staður fyrir frumkvöðlafyrirtæki þarf að taka m.a. reglur um kauprétti til gagngerrar endurskoðunar. Það þarf hins vegar ekki að nálgast slíkar breytingar á þeim forsendum að lækka eða afnema skatta heldur frekar að skattlagning eigi sér stað þegar raunveruleg verðmæti verða til. Framangreint er eingöngu einn af mörgum göllum við „Nýsköpunarlandið“ Ísland sem auðvelt væri að breyta með litlum eða engum tilkostnaði fyrir ríkið. Eins og hér er bent á þurfa breytingar ekki að vera flóknar og til þeirra þarf ekki annað en viljann sem stjórnmálamenn sýna á tyllidögum þegar þeir tjá sig um nýsköpun í ræðu og riti.