Faglegt efni
Er unnt að byggja á keyptu gögnunum?
Mörg álitaefni vakna í tengslum við fyrirhuguð kaup skattrannsóknarstjóra á upplýsingum um eignir íslenskra aðila í skattaskjólum.
Í umfjöllun á mbl.is, þann 11. febrúar sl., var haft eftir Bernhard Bogasyni, lögmanni hjá Nordik lögfræðiþjónustu að hann teldi líklegt að íslenskir dómstólar myndu taka tillit til sönnunargagna jafnvel þótt ljóst væri að þau hefðu verið fengin með ólögmætum hætti.
Miklu skiptir varðandi sönnunarmat hvers eðlis gögnin eru og frá hverjum þau stafa og hvort hægt er að staðfesta þau fyrir dómi. Hefðbundin yfirlit frá fjármálafyrirtækjum hafa eðli málsins samkvæmt mikið sönnunargildi en almennar upplýsingar komnar frá nafnlausum aðilum lítið sönnunargildi. Þá er mögulegt að málsmeðferð verði ekki réttlát hafi einungis ákæruvaldið upplýsingar um uppruna sönnunargagna enda getur það takmarkað möguleika sakbornings til að verjast og er í andstöðu við meginregluna um jafna stöðu ákæruvalds og sakbornings.
Til viðbótar við framangreint má ýmsu bæta við. Til dæmis verður að telja ólíklegt að einhver mál verði byggð á þessum gögnum einum saman. Líklegt verður að telja að skattrannsóknarstjóri sé að kaupa upplýsingar sem hann metur að sé líklegt að leiði til þess að mál verði tekin til rannsóknar og frekari gagna aflað.
Það eru að sjálfsögðu mjög margar hliðar á þessum málum og mjög eðlilegt að fjármálaráðherra og skattrannsóknarstjóri taki málið til gaumgæfilegrar athugunar og skoði m.a. lagagrundvöll málsins frá öllum hliðum. Eftirfarandi punktar hafa t.d. ekkert komið fram í umræðunni og ljóst að ýmsir lögfræðilegir fletir eru á málinu:
- Samkvæmt siðareglum ákærenda sem birtar eru á heimasíðu ríkissaksóknara er kveðið á um það í II kafla reglnanna um faglega breytni að ákærendum beri m.a. að athuga möguleg sönnunargögn með tilliti til þess hvort þeirra hafi verið löglega aflað, og jafnframt að ákæranda beri að hafna notkun sönnunargagna sem með rökum má telja að hafi verið aflað ólöglega þannig að alvarlega hafi verið brotið gegn mannréttindum hins grunaða eða annarra, nema gegn þeim sem það gerði. Siðferðilega þarf ákærandinn þá að meta hvort stuldur viðkomandi gagna sé alvarlegt brot gegn friðhelgi einkalífs viðkomandi – kannski getur hver spurt sig hvað honum þætti um að t.d. bankastarfsmenn seldu hæstbjóðanda kredikortayfirlit þeirra.
- Þá er spurning hvort sú staðreynd að ekki var í gildi CFC regla á Íslandi fyrr en á árinu 2010, þ.e. regla sem kveður á um að tekjur erlendra fyrirtækja í lágskattaríkjum beri að skattleggja hjá eigendum þeirra (57. gr. a í lögum um tekjuskatt nr. 90/2003) leiði til þess að verulegur munur sé á Íslandi og öðrum ríkjum varðandi það hvort hagsmunir aðila í lágskattaríkjum hafi verið í samræmi við lög eða ekki og því minni hagsmunir fyrir íslensk yfirvöld að kaupa gögnin en fyrir yfirvöld annarra ríkja þar sem sambærileg regla hefur verið í gildi um árabil.
- Ennfremur er spurning hvort það að kaupa gögnin geti talist peningaþvætti og varðað við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga ef fyrir liggur að gagnanna var aflað með refsiverðum hætti.