Faglegt efni
Nýr fjársýsluskattur
sss
Rökin fyrir setningu laga um sérstakan fjársýsluskatt sem lagður er á fjármálafyrirtæki, voru þau að fjármálafyrirtæki landsins eru undanþegin virðisaukaskattskyldu og að þau hafi hlotið mikla fjárhagsaðstoð af hálfu hins opinbera í kjölfar hrunsins. Gefið er í skyn að þau hafi verið í öfundsverðri stöðu fyrir, en þvert á móti sitja fjármálafyrirtæki uppi með meiri skattbyrði en virðisaukaskattskyldar atvinnugreinar sem hefur verulega neikvæð áhrif.
Þann 17. desember sl. samþykkti Alþingi lög nr. 165/2011 um nýjan skatt á fjármálafyrirtæki. Fjársýsluskattur (e. Financial Activities Tax) er í stuttu máli 5,45% skattur sem nú er lagður á allar launagreiðslur fjármálafyrirtækja sem undanþegin eru virðisaukaskatti skv. lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Einnig er lagður sérstakur 6% fjársýsluskattur á tekjuskattsstofn umfram 1 milljarð króna. Fyrri tegundin er því byggð á launagreiðslum en seinni á tekjuskattsstofni.
Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi að lögum um fjársýsluskatt má finna eftirfarandi rök fyrir þessum nýja sértæka skatti á fjármálafyrirtæki, en þar er vísað í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem ber heitið „Fair and Substantial Contribution by the Financial Sector”:
„Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að rannsóknir sýni að fjármálafyrirtæki beri hlutfallslega minni skatta en aðrar atvinnugreinar, m.a. vegna undanþágu þeirra frá álagningu virðisaukaskatts. Sú staðreynd kalli að einhverju leyti á endurskoðun á álagningu skatta á greinina í því skyni að jafna þennan mun og skapa meira skattalegt jafnræði milli atvinnugreina. Ljóst er að þessi umræða er einnig að hluta til sprottin af fjármálahruninu haustið 2008 og þeirri miklu fjárhagsaðstoð sem fjármálafyrirtæki víða um heim hafa notið af hendi hins opinbera í kjölfar hrunsins.“
Þá kemur einnig fram:
„Rökin fyrir þessari skattlagningu eru þau að þessi atvinnugrein er undanþegin virðisaukaskatti sem gerir hana betur setta skattalega séð heldur en virðisaukaskattsskyldar atvinnugreinar.“
Við þetta verður að gera nokkrar athugasemdir.
Sú staða fjármálafyrirtækja að vera undanþegin virðisaukaskatti er ekki sérstaklega öfundsverð og hefur í reynd engan veginn þau áhrif að fjármálafyrirtæki séu skattalega í betri stöðu en önnur fyrirtæki heldur þvert á móti. Ef slík fyrirtæki væru virðisaukaskattskyld væri þeim vissulega skylt að innheimta virðisaukaskatt af viðskiptavinum sínum, líkt og samkeppnisaðilar þeirra, en þau þyrftu hins vegar ekki að bera kostnað af virðisaukaskatti af aðkeyptum vörum og þjónustu. Fyrirtæki sem undanþegin eru virðisaukaskatti sitja einmitt uppi með að greiða virðisaukaskatt af öllum aðkeyptum vörum og þjónustu í stað þess að geta velt þeim kostnaði beint yfir á neytendur. Skattbyrði fjármálafyrirtækjanna sjálfra er því ekki minni vegna undanþágu frá virðisaukaskattsskyldu heldur einmitt mun meiri. Fjármálafyrirtæki eru stærstu greiðendur virðisaukaskatts hér á landi vegna undanþágunnar í ljósi þess að þau greiða virðisaukaskatt af vörum og þjónustu án endurgreiðslu. Framangreind fullyrðing um að undanþága frá virðisaukaskatti geri þessa atvinnugrein betur setta skattalega er því beinlínis röng.
Skv. framangreindu virðist málið vera framsett þannig að verið sé að bregðast við of lágri skattlagningu ákveðinna fyrirtækja. En í raun er hér verið að auka á skattalega skekkju þeirra samanborið við önnur fyrirtæki. Þetta er gert með því að skattleggja útgjöld án nokkurs tillits til þess hvort fyrirtækið er rekið með hagnaði eða ekki. Skekkjan sem leiðir af undanþágunni frá virðisaukaskatti felur einmitt líka í sér aukin útgjöld þessara fyrirtækja. Í því sambandi má benda á að fjársýsluskatturinn tekur bæði til fjármálafyrirtækja og fyrirtækja í sambærilegri atvinnustarfsemi sem undanþegin eru virðisaukaskatti, allt frá litlum verðbréfafyrirtækjum og tryggingamiðlurum til stórra viðskiptabanka. Velta og möguleikar þessara fyrirtækja til að skila hagnaði er eins og gefur að skilja mjög mismunandi. Réttlæting hins nýja fjársýsluskatts með vísun til mikillar fjárhagsaðstoðar við fjármálafyrirtæki, eins og einnig er gefið í skyn í greinargerðinni með lögunum, getur með engum hætti átt við um öll fjármálafyrirtæki sem undanþegin eru virðisaukaskatti. Auk þess má nefna að þegar er búið að nota þau rök fyrir öðrum nýjum skatti sem nefnist sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki skv. lögum nr. 155/2010.
Fjársýsluskatturinn bætist nú ofan á þá miklu hækkun sem orðið hefur á tryggingagjaldi á launagreiðslur. Forsvarsmenn atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar hafa verið sammála um mikilvægi þess að lækka tryggingagjaldið enda tekur það ekki mið af hagnaði fyrirtækjanna og getur raunar myndað tap, sérstaklega í rekstri smærri fyrirtækja. Hækkun tryggingargjalds á síðastliðnum 3 árum hefur hækkað starfsmannakostnað fyrirtækja verulega og þannig dregið bæði úr hvata til nýrra ráðninga og minnkað svigrúm til launahækkana. Það skýtur nokkuð skökku við að þegar yfirvöld virtust loks hafa móttekið þessi skilaboð frá atvinnulífinu og dregið að hluta í land með hækkun tryggingagjalds skuli ráðist í lögfestingu sérstaks viðbótartryggingagjalds hjá stórum vinnuveitendum. Við bætist að slík skattlagning hlýtur að hafa hamlandi áhrif á samkeppni enda varla hvetjandi að hefja starfsemi með slíka fyrirsjáanlega viðbótarbyrði. Þá verður enn og aftur að nefna að þrátt fyrir mikla gagnrýni virðist ekki enn viðleitni í þá átt að tryggja stöðugleika í íslensku skattumhverfi þar sem fjárfestar og almennir skattgreiðendur sjá fyrir í sínum áætlunum hversu há skattbyrði þeirra er frá ári til árs.
Eins og ráða má af ofangreindu telja undirritaðir hinn nýja fjársýsluskatt á launagreiðslur hafa verulega neikvæð áhrif auk þess sem hann hafi verið lögfestur á villandi og röngum forsendum. Því miður virðist það vera orðin regla frekar en undantekning þegar horft er til þeirra skattabreytinga sem ráðist hefur verið í frá árinu 2009.