Faglegt efni
Stefnubreyting í skattarefsimálum?
Greina má verulega stefnubreytingu í dómsniðurstöðum sem fallið hafa síðustu misseri er varða refsiábyrgð stjórnenda vegna vanskila á svokölluðum rimlagjöldum.
Í grein sinni frá 12. febrúar 2014 sögðu þeir Andri Gunnarsson og Páll Jóhannesson að merkja mætti stefnubreytingu í skattarefsimálum í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 354/2013, frá 12. desember 2013 og 388/2013, frá 23. janúar 2014. Í báðum málum voru stjórnarmenn félaga sýknaðir ef refsiábyrgð, með vísan til þess að verkaskipting innan félaganna hefði verið með þeim hætti að ábyrgð á skýrsluskilum og greiðslu skatta hafði hvílt á öðrum aðilum.
Eftir stóðu þó framkvæmdastjórar ennþá, en miðað við fyrri dómafordæmi mátti mögulega ætla að hlutlæg ábyrgð á greiðslu vörsluskatta hvíldi ennþá á þeim, með vísun í skyldur skv. lögum um einkahlutafélög. En nú verður ekki betur séð en að í dómi héraðsdóms, sem kveðinn var upp þann 25. mars sl. í máli nr. S-633/2014, sé gengið lengra. Í málinu var skráður framkvæmdastjóri sýknaður af refsikröfum sérstaks saksóknara, með vísan til þess að hann hefði ekki komið að rekstri félagsins þegar vanskil skattanna komu til.
Úr héraðsdómi: Dómstólar hafa á liðnum árum skýrt ákvæði laga um skyldur stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í einkahlutafélögum, tengt skilum á staðgreiðsluskilagreinum og afdreginni staðgreiðslu starfsmanna. Verður að telja að með nýlegum dómum hafi Hæstiréttur varðað þá leið að úrslitum ráði hver hafi haft með höndum skil á skýrslum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts eða annast skil á slíkum gjöldum.
Verði þessi niðurstaða staðfest af Hæstarétti verður ekki betur séð en að um stefnubreytingu sé að ræða, sem telja verður nokkra réttarbót fyrr stjórnendur. Eftir stendur spurningin um mögulegan bótarétt þeirra einstaklinga sem sitja uppi með refsingar, þó að fyrir liggi að málsatvik sem horfa til sýknu þeirra hafi ekki einu sinni verið rannsökuð af hálfu yfirvalda.