Faglegt efni

Úrskurður yfirskattanefndar - sérstakur fjársýsluskattur

30.3.2015

Nýlegur úrskurður yfirskattanefndar kann að hafa veruleg áhrif hjá sumum fjármálafyrirtækjum, sem sættu álagningu sérstaks fjársýsluskatts gjaldaárið 2013. 

Fyrir stuttu kvað yfirskattanefnd upp úrskurð í máli vegna álagningu sérstaks fjársýsluskatts. Kærandi var fjármálafyrirtæki sem var samskattað með dótturfélag sínu. Kærandi taldi að við álagningu sérstaks fjársýsluskatts skyldi tekið tillit til samsköttunar, sem í tilviki kæranda leiddi til þess að enginn fjársýsluskattur yrði lagður á hann vegna ársins 2012. Ríkisskattstjóri féllst ekki á það með kæranda, þar sem að ekki væri um að ræða almennan tekjuskatt, heldur sérstakan skatt sem ríkisskattstjóri taldi að samsköttunarheimildir gætu ekki tekið til. 

Með lögum nr. 142/2013 var tekjuskattslögum breytt þannig að tekið var sérstaklega fram að ekki skyldi tekið tillit til samsköttunar og yfirfæranlegs taps við álagningu sérstaks fjársýsluskatts. Ákvæðið öðlaðist gildi 1. janúar 2014 og en ágreiningur málsins varðaði gjaldárið 2013 (tekjuárið 2012). Yfirskattanefnd hafnaði rökum ríkisskattstjóra og kvað upp úrskurð í samræmi við ofangreind sjónarmið kæranda. 

Hvaða þýðingu hefur þetta? 

Yfirskattanefnd slær því föstu að fyrir 1. janúar 2014 beri að taka tillit til samsköttunar við álagningu sérstaks fjársýsluskatts. Þó það sé ekki sérstaklega tekið á því í þessu tiltekna máli má einnig álykta að taka beri tillit til yfirfæranlegs taps við álagningu hins sérstaka fjársýsluskatts fyrir 1. janúar 2014. 

Til hverra tekur niðurstaðan? 

Mál þetta getur haft áhrif á fjármálafyrirtæki sem voru samsköttuð með dótturfélögum sínum og/eða áttu yfirfæranlegt tap fyrir 1. janúar 2014, þ.e.a.s. tekjuárið 2013 og fyrr.

Hvað þarf að hafa í huga? 

Það sem er óljóst að svo stöddu er hvort fjármálafyrirtæki sem sæta fjársýsluskatti hafi heimild til að undanskilja tekjur dótturfélaga sinna frá sérstökum fjársýsluskatti, hafi þau haft heimild til samsköttunar.

Í umsögn ríkisskattstjóra í ofangreindu máli kemur eftirfarandi fram:

„Í 2. gr. laga nr. 165/2011 er nákvæmlega tilgreint hvaða aðilar eru skattskyldir samkvæmt lögunum af annars vegar launaútgjöldum sínum og hins vegar tekjuskattsstofni sínum. Þannig er ekki um það að ræða að hafi móðurfélag verið rekið með tapi en samskattað dótturfélag í óskyldri starfsemi væri með hagnað umfram tap móðurfélagsins, að grundvöllur skapist þar með til álagningar sérstaks fjársýsluskatts á þann skattstofn sem hvorki átti uppruna sinn í fjármála- né vátryggingastarfsemi.“

 Yfirskattanefnd tekur ekki á þessu álitaefni sérstaklega en færa má rök fyrir því að aðili sem sæki um samsköttun í tekjuskatti þurfi ekki að sæta því að tekjur dótturfélaga, sem ekki heyra undir lög um sérstakan fjársýsluskatt, skuli sæta sérstökum fjársýsluskatti sökum samsköttunar. Óhjákvæmilega mun verða skorið út um þetta álitaefni í komandi málum er varða þennan skatt. 

Nánari upplýsingar: nordik@nordik.is