Faglegt efni

Reglur og íslenskar aðstæður

26.3.2015

Það eru ekki ný tíðindi að við búum í afar fámennu ríki. Þær þjóðir sem „við viljum bera okkur sama við“ eins og oft er ritað og rætt eru að sama skapi almennt margfalt fjölmennari. Að erlendri fyrirmynd setjum við okkur flóknar reglur, sem oft á tíðum eru beinlínis samdar af öðrum af öðrum þjóðum. Oft skortir á innleiðingu og kynningu á þessu mikla reglumagni, enda er hið opinbera og einkageirinn sjálfur ekki með mannskap í alla þá vinnu sem þyrfti að fara fram til að halda í við flækjustigið.

Hættan er sú að rekstraraðilar missi yfirsýn yfir reglurnar, tilgang þeirra og inntak. Ef menntaðir lögfræðingar eiga í basli með slíka yfirsýn má velta fyrir sér hvaða kröfur má gera til stjórnenda fyrirtækja, smærri og stærri. Á sama tíma eru gerðar auknar kröfur til stjórnenda og yfir þeim vofir refsi- og bótaábyrgð, ef þeir sækja sér ekki dýra ráðgjöf á hinum ýmsu ófyrirsjáanlegu sviðum.

Með auknu flækjustigi og skertri yfirsýn er hættan líka sú að einstaklingar í atvinnulífinu séu viðvarandi í þeirri stöðu að yfirvöld á hverjum tíma geti hvenær sem er tekið sig til og sakað þá um hvers kyns lögbrot, þrátt fyrir að hafa talið sig hafa farið að reglunum eins og þeir og aðrir skildu þær. Lögbrotin geta snúið að hvers kyns formreglum sem virðast ekki alvarleg og afleiðingar geta verið verulegu ósamræmi við tilfinninguna fyrir alvarleika brotsins.

Ef þessi tilfinning atvinnulífsins eykst munu færri treysta sér til þess að taka þá áhættu að stofna fyrirtæki og/eða stjórna þeim. Leikreglur verða að vera skiljanlegar, aðgengilegar og gagnsæjar þannig að fyrir liggi hvernig á að hegða sér í samræmi við þær. Ótækt er að standa frammi fyrir alvarlegum afleiðingum meintra brota sem enginn gat séð fyrir á þeim tíma sem þau eiga að vera framin. Þá er líka óásættanlegt að fyrirtæki upplifi sig viðvarandi sem andstæðinga hins opinbera og það sé jafnvel talin sönnuð staðreynd að jafnræðis sé ekki gætt í aðgerðum stjórnvalda.

Til þess að draga úr auknu vantrausti þarf að bæta forgangsröðun í setningu nýrra íþyngjandi reglna miðað við íslenskar aðstæður, gera ráð fyrir raunhæfri innleiðingu þeirra miðað við íslenskar aðstæður og bæta samskipti og samráð fyrirtækja og hins opinbera til muna.