Faglegt efni

Kerfisvillur

28.6.2015

Við höfum gengið í gegnum það nokkrum sinnum á síðustu árum að löng venja hefur skapast í viðskiptum sem síðan hefur brostið vegna ákvarðana stjórnvalda og eftir atvikum niðurstöðum dómsmála. 

Eðlilegt er að upp komi ágreiningsmál sem síðan eru til lykta leidd því kerfi sem við búum við en í mörgum tilvikum virðast allir eða a.m.k. mjög margir hafa tekið því sem sjálfsögðum hlut að tiltekinn háttur á viðskiptum væri viðtekinn og venjubundinn, sem ekki væri mikil áhætta fólgin í að fylgja. Hér má nefna sem dæmi gengistryggð lán, skuldsettar yfirtökur, úthlutun verðmæta úr einkahlutafélögum o.fl.

Gengistryggð lán voru dæmd ólögmæt eftir að fjármálafyrirtæki höfðu stundað slík viðskipti í mörg ár en hins vegar ekki hin verðtryggðu. Í hinum tveimur dæmunum brustu skattalegar forsendur fyrir viðskiptunum en það kom ekki í ljós fyrr en löngu eftir að þeir gerningar voru yfirstaðnir. Hafði það veruleg áhrif á fyrirtæki og fólk sem í góðri trú taldi sig fara að leikreglum. Ef leikreglur hefðu verið skýrar hefði fólk tekið allt aðrar ákvarðanir á þeim tíma og með því komið í veg fyrir gríðarlegan kostnað, sem er þó enn þungbærari þegar slíkur kostnaður kemur í ljós mörgum árum síðar.

Fleiri dæmi mætti nefna en nú síðast virtist stefna í að áratuga löng skattframkvæmd við uppgjör þrotabúa yrði aflögð með útgáfu bindandi álits ríkisskattstjóra, sem var síðan hins vegar afturkallað og breytt. Kom þá upp sú staða að til greina gat komið að öll þrotabú hefðu verið ranglega gerð upp svo tugum ára skiptir.

Deila má um efnislega niðurstöðu í mörgum þessara mála en eftir stendur þó hin almenna staða sem fólk og fyrirtæki stendur frammi fyrir í daglegum rekstri. Tilfinningin verður í auknum mæli sú að erfitt er að treysta á fyrirsjáanlegar reglur og þó sérstaklega að tekið sé á málum af meðalhófi þannig að efni gildi umfram form. Allir geta staðið frammi fyrir að forsendur fyrir því, sem virtist vera eðlileg og góð ákvörðun, brestur síðan mörgum árum síðar með erfiðum afleiðingum. Eftir því sem reglum fjölgar, þær verða flóknari og innleiðing þeirra erfiðari, eykst þessi erfiða staða sem blasir við fólki.

Reglur eru því miður oft svo flóknar og óaðgengilegar að hægt er að túlka þær á mjög mismunandi vegu. Í ljósi þess mætti velta því upp hvort taka ætti almennt á slíkum „kerfisvillum“, sem lýsa sér í slíkri mismunandi túlkun reglna, með raunverulegu meðalhófi þannig að íþyngjandi reglur séu skýrðar til framtíðar en ekki til fortíðar.