Faglegt efni
Dýr mistök löggjafans
bb
Afdráttarskattar á vexti leggjast fyrst og fremst á greiðendur vaxtanna, en ekki móttakanda. Þessi skattur mun valda íslenskum fyrirtækjum vandkvæðum og takmarka möguleika þeirra til að sækja sér lánsfjármagn erlendis.
Þann 1. september 2009 var nýr skattur til greiðslu hér á landi. Um er að ræða skatt sem lagður er á vaxtagreiðslur sem innlendir aðilar greiða erlendum aðilum. Í frumvarpi laganna sem lögfestu umræddan skatt kom fram að megin ástæða fyrir nýja skattinum væri að skattleysi vaxta opnaði leið til að skjóta tekjum undan skatti hér á landi, en ekki var ráðgert að skatturinn myndi verða til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.
Þegar efnahags- og skattanefnd tók málið til meðferðar var fjöldi aðila sem sendi nefndinni umsagnir um frumvarpið, þ. á m. var fjöldi sérfræðinga sem vöruðu við því að lagður yrði afdráttarskattur á vaxtatekjur erlendra aðila.
Aðvaranirnar lutu fyrst og fremst að því að í allflestum gildandi lánssamningum milli innlendra og erlendra aðila er að finna sk. „gross-up“" ákvæði, sem mælir fyrir að lántaki skuli bera hvern þann skatt sem kann að vera lagður á vaxtatekjur lánveitandans. M.ö.o. væri það ekki hinn erlendi lánveitandi sem bæri skattinn, heldur íslenski lántakinn. Það gerði það að verkum að íslenskir aðilar lentu í verulegum viðbótarkostnaði vegna fjármögnunar sinnar.
Þá var ennfremur á það bent að lagaákvæðið þrengdi möguleika innlendra aðila á lánamörkuðum til framtíðar, þar sem skatturinn gerði það að verkum að sérstaklega óhagkvæmt var að sækja lánsfjármagn erlendis, nema til staðar væri tvísköttunarsamningur milli Íslands og viðkomandi ríkis, sem kæmi í veg fyrir skattlagningu vaxtatekna hér á landi.
Síðast en ekki síst var talið ljóst að fjöldi erlendra aðila, sem voru með starfsemi hér á landi, myndu leggja hana af.
Fyrir efnahags- og skattanefnd lýstu sérfræðingar á sviði skattaréttar sig reiðubúna að aðstoða við lagabreytingatillögu sem líkleg væri til að koma í veg fyrir skattaundanskot, án þess að hafa letjandi og hamlandi áhrif á innlent atvinnulíf. Skemmst er frá að segja að meirihluti efnahags- og skattanefndar og Alþingis, skellti skollaeyrum við og tóku lögin gildi í óbreyttri mynd, þrátt fyrir alvarleg varnarorð.
Í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem liggur fyrir Alþingi þegar þessi orð eru rituð, er reynt að bæta úr þeim mistökum sem urðu þegar afdráttarskattar á vexti voru lögfestir. Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá almennum afdráttarskatti á vaxtatekjur erlendra aðila, nema þegar um er að ræða greiðslur milli tengdra aðila. Er tillagan í samræmi við hugmyndir sem varpað hafði verið upp fundum efnahags- og skattanefndar.
Rökin fyrir tillögunni eru áhugaverð og bergmála í raun fyrri viðvaranir, en í frumvarpinu segir:
„Að fenginni reynslu hefur komið í ljós að skatturinn getur þrengt að lánamöguleikum fyrirtækja. Í almennum skilmálum skuldabréfa og lánasamninga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum milli ótengdra aðila er iðulega brugðist við afdráttarskatti af vöxtum með svokölluðu „gross-up“ ákvæði. Það felur í sér að ef til afdráttarskatts á vexti kemur er vaxtagreiðslan einfaldlega hækkuð þannig að nettógreiðslan til lánveitanda breytist ekki. Hin nýja skattlagning getur þannig fallið á lántakandann.“
Í frumvarpinu er þó ekkert fjallað um tekjutap ríkissjóðs vegna þeirra erlendu aðila sem lagt hafa af rekstur sinn hér á landi, sökum hins vanhugsaða skatts, sem nú er verið að leggja af.
Þegar lagt er í meiriháttar stefnubreytingar í skattamálum, getur það borgað sig að leita samstarfs við sérfræðinga í skattamálum og er það óskandi að löggjafinn hafi það hugfast í framtíðinni. Þetta á sérstaklega við á tímum efnahagslegra erfiðleika þegar atvinnulífið má síst við því að lagðar séu á það tilgangslausar birgðar. Ef hlustað hefði verið á fyrri varnarorð hefði verið unnt að koma í veg fyrir umtalsverðan kostnað íslenskra lántakenda og verulegt tekjutap ríkissjóðs.