Faglegt efni

Um 1. mgr. 56. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008

29.3.2015

Bogi Nilsson hrl., fyrrverandi ríkissaksóknari, nú ráðgjafi hjá Nordik, hefur skrifað grein um ákvæði 1. mgr. 56. gr. laga um meðferð sakamála og um nýlega túlkun Hæstaréttar á ákvæðinu. Í greininni er rakið að efni ákvæðisins hefur ráðist af röngum skilningi Réttarfarsnefndar á inntaki 1. mgr. 72. gr. laga um meðferð opinberra mála, sem ákvæðið átti að leysa af hólmi samkvæmt athugasemdum við frumvarp til laga um meðferð sakamála.

I.          Inngangur

Ákvæðið í 1. mgr. 56. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 (sml. hér á eftir) hefur komið við sögu í nokkrum hæstréttardómum í ætluðum efnahagsbrotamálum á síðustu misserum.  Skýrsla lögreglu eða greinargerð rannsakenda”, sem gerð hefur verið með vísan til ákvæðisins og sem ákæruvaldið hefur lagt fram við þingfestingu máls hefur, með öðru, verið bitbein í málunum.

Misskilningur virðist hafa ráðið inntaki lagagreinarinnar, eins og rakið verður.  Kannski hefur Hæstiréttur eytt misskilningnum eða öllu heldur fest hann í sessi.

Hér á eftir verður fyrst (I) farið yfir efni 1. mgr. 56. gr. sml. ásamt viðeigandi athugasemdum í frumvarpi til laganna sem beina umfjölluninni til ákvæða í eldri lögum um meðferð sakamála. Ennfremur verður farið yfir efni 1. mgr. 57. gr. sml. með sama hætti en í því ákvæði er skírskotað til 1. mgr. 56.gr. sml.  Þá (II) verður vikið að fjórum dómsúrlausnum þar sem 1. mgr. 56. gr. sml. kemur við sögu. Loks (III) fylgja nokkur lokaorð eða tillögur í skeytastíl.

II.        Lagaákvæði

1.         1. mgr. 56. gr. sml.

Ákvæðið er svohljóðandi:

„Lögregla tekur saman skýrslu (undirstrikun mín) um rannsókn sína í hverju máli um sig þar sem getið skal einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra. Eftir því sem við á skal þar meðal annars koma fram það sem sakborningur og vitni bera við skýrslutöku, sbr. 64. og 65. gr., athugun lögreglu sjálfrar og niðurstaða skoðunar og rannsóknar sérfróðra manna."

Í athugasemdum við frumvarp til laganna segir svo um málsgreinina:

Fyrsta málsgrein er í megindráttum sama efnis og 1. mgr. 72. gr. núgildandi laga (undirstrikun mín). Hefur hún einungis verið löguð að þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði á gildandi ákvæðum um rannsókn lögreglu samkvæmt frumvarpinu."

Staðhæft er í athugasemdunum að 1. mgr. 56. gr. sé í meginatriðum sama efnis og 1. mgr. 72. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 (oml. hér á eftir).  Þarna fer eitthvað á milli mála.

Texti 1. mgr. 56. gr. sml. er skýr.  Þar er mælt fyrir um að lögreglan taki saman eina skýrslu eða  greinargerð um rannsókn sína í hverju máli. Í 3. mgr. 66. gr. sml. er skýrslan nefnd „rannsóknarskýrsla lögreglu”. 

2.         1. mgr. 72. gr. laga nr. 19/1991

Hvað fólst í 1. mgr. 72. gr. oml?  Þar var mælt fyrir um að lögreglan gerði skýrslur, ekki eina skýrslu heldur sérstaka skýrslu um sérhverja rannsóknaraðgerð sína og skyldu skýrslurnar vera skriflegar.   Líklegt er að sá sem ritaði frumvarp að 1. mgr. 56. gr. sml. og athugasemdir með henni á vegum réttarfarsnefndar hafi misskilið efni gömlu lagagreinarinnar.

Þessi ályktun kallar á  frekari röksemdir og skýringu á efni 1. mgr. 72. gr. oml. Lagagreinin var upphaflega svohljóðandi:

„Rannsóknari semur skriflegar skýrslur (undirstrikun mín) um rannsóknaraðgerðir sínar og skulu skráðar þar skýrslur þeirra sem yfirheyrðir eru, athuganir rannsóknara sjálfs og annað það sem máli skiptir. Ef sérstaklega stendur á, svo sem við yfirheyrslu barns, er rannsóknara þó heimilt að hljóðrita skýrslu vitnis eða taka skýrslugjöf upp á myndband.“ 

Í athugasemdum við frumvarp til laganna segir:

„ Í 1. mgr. 72. gr. segir að rannsóknari skuli semja skýrslu (undirstrikun mín) um rannsóknina. Eiga þar að koma fram athuganir hans sjálfs, svo og skýrslur þær sem hann tekur af sakborningi og vitnum. Er þetta í samræmi við það sem tíðkast hefur. (undirstrikun mín) Skýrslu sakbornings eða vitnis má þó, ef sérstaklega stendur á, hljóðrita eða taka upp á myndband. Hér eru sérstaklega hafðar í huga yfirheyrslur yfir börnum, en einnig í öðrum tilvikum gæti verið hentugt að hljóðrita skýrslu, t.d. skýrslu sem tekin er af sjúklingi í sjúkrahúsi.”

Í upphafi lagagreinarinnar er orðið skýrsla notað í fleirtölu en í athugasemdunum hins vegar í eintölu. Hlýtur það að skoðast ritvilla eða ónákvæmni þegar horft er til sjálfs lagaákvæðisins.  Hugsanlegt er að réttarfarsnefnd hafi sótt misskilning sinn í athugasemdirnar.

Hjá lögreglunni var ákvæðið í 1. mgr. 72. gr. skilið og framkvæmt á þann veg að lögreglunni bæri að skrásetja rannsóknaraðgerðir sínar svo sem um leit, haldlagningu, handtöku og vettvangsrannsóknir eins fljótt og auðið væri svo og að skrá skýrslur sem teknar væru af vitnum eða sakborningum. 

Í athugasemdunum er bent á að fyrirmælin um skráningu skýrslna sé í samræmi við það sem tíðkast hefur.  Í eldri lögum, nr. 57/1951 og síðast nr. 74/1974, sagði í 7. mgr. 40. gr:

Lögreglumenn gera skriflegar og nákvæmar skýrslur um rannsókn sína og staðfesta þær fyrir dómi samkvæmt ákvörðun dómara.”

Til samanburðar skal þess getið að í dönsku réttarfarslögunum, 744. gr., er almennt og skýrt ákvæði um skýrslugerð lögreglu líkt því sem var í 1. málsl. 72. gr. oml. Er ákvæðið svohljóðandi:

Politiet udfærdiger snarest rapport om de afhøringer, der foretages, og om andre efterforskningsskridt, medmindre oplysning herom foreligger på anden måde.”

Undanteking frá reglunni um að skýrslur  lögreglunnar ættu að vera skriflegar kom fram í síðari hluta 1. mgr. 72. gr. oml. þar sem hljóðritun skýrslna eða myndbandsupptaka var í fyrsta skipti nefnd í lögum um meðferð opinberra mála.

3.         Niðurstaða samanburðar á 1. mgr. 56. gr. sml. og 1. mgr. 72. gr. oml.

Eins og segir hér að framan mælir 1. mgr. 56. gr. sml. fyrir um að lögreglan taki saman skýrslu eða greinargerð um rannsókn sína í hverju máli þar sem getið skal einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra”

Hins vegar mælti 1. mgr. 72. gr. oml. fyrir um þá meginreglu að lögreglunni eða rannsóknurum bæri að gera skriflegar skýrslur um hvers konar rannsóknaraðgerðir sínar í hverju máli. 

Í augum uppi ætti að liggja að efni umræddra lagagreina, þ.e. 1. mgr. 72. gr. oml. og 1. mgr. 56. gr. sml., er alls ekki sambærilegt og því er það rangt sem segir í athugasemdum við frumvarp til laga um meðferð sakamála að 1. mgr. 56. gr. sé í megindráttum sama efnis og 1. mgr. 72. gr. laga um meðferð opinberra mála.

4.         Afleiðing misskilnings á efni 1. mgr. 72. gr. laga nr. 19/1991

Vegna þess að texti 1. mgr. 56. gr. sml., sem átti að leysa 1. mgr. 72. gr. oml. af hólmi, er eins og raun ber vitni, vantar almennt ákvæði í lögin um meðferð sakamála sem mælir fyrir um að lögreglan skuli gera skýrslur um hvers konar rannsóknaraðgerðir sínar í málum. Þetta kemur ekki að sök varðandi skýrslur sem teknar eru af sakborningi eða vitni enda eru ítarleg ákvæði í 66. gr. sml. svo og í reglugerð nr. 65/2009, sem ráðherra hefur sett samkvæmt heimild í 67. gr. sml., með fyrirmælum um hvernig skýrslur skuli skrá eða varðveita með öðrum hætti.  Í reglugerðinni eru ennfremur ítarleg ákvæði um skýrslugerð þegar maður er handtekinn svo og um vistun handtekins manns. Hins vegar er ekki að finna í lögum um meðferð sakamála fyrirmæli um að lögreglan skuli gera skýrslur um aðgerðir sínar svo sem vegna; (1) halds á munum, sbr. IX. kafla, einungis að haldlagðir munir skuli skrásettir, sbr. 71. gr., (2) leitar og líkamsrannsóknar, sbr. X. kafla, (3) símahlustunar og annarra sambærilegra úrræða, sbr. XI. kafla og (4) vettvangsrannsóknar.

Að sjálfsögðu mun lögreglan halda áfram að gera skýrslur um rannsóknaraðgerðir sínar í málum þótt lög mæli ekki lengur fyrir um að það skuli gert. Varla þykir það þó hæfa að ekki skuli mælt fyrir um skýrslugerðina í lögum.

5.         Hlutverk skýrslu samkvæmt 1. mgr. 56. gr. sml.

            Samanburður á 1. mgr. 57. gr. sml. og 1. mgr. 77. gr. oml.

Spyrja má hver sé tilgangurinn með skýrslu - rannsóknarskýrslu lögreglu” - eða skýrslugerð samkvæmt 1. mgr. 56. gr? Til þess að leita svars við þeirri spurningu verður hér leitað til texta 1. mgr. 57. gr., athugasemda við frumvarp til laga um meðferð sakamála, fyrrirennara þess ákvæðis í 1. mgr. 77. gr. oml., en ekki til dómsúrlausna síðustu missera, sem vikið verður að hér á eftir. Texti 1. mgr. 57. gr. sml. er svohljóðandi:

„Nú telur lögregla að rannsókn sé lokið og gögn komin fram sem geti leitt til saksóknar og sendir hún ákæranda þá rannsóknargögnin nema lögreglustjóri megi sjálfur höfða mál skv. 1. og 4. mgr. 24. gr. Með rannsóknargögnum sendir lögregla skýrslu um rannsóknina skv. 1. mgr. 56. gr“. (undirstrikun mín)

Í athugasemdum við frumvarp til sml. segir:

„Í 1. mgr. er kveðið á um lok rannsóknar í því tilviki að lögregla telji gögn fram komin sem geti leitt til saksóknar, sbr. 1. mgr. 77. gr. núgildandi laga. (undirstrikun mín)

Ákvæði 1. mgr. 77. gr. oml., sem vísað er til í athugasemdunum, var svohljóðandi:

Nú telur rannsóknari rannsókn lokið og gögn komin fram sem geti leitt til saksóknar og sendir hann ríkissaksóknara þá rannsóknargögnin, nema hann megi sjálfur höfða mál skv. 28. gr. Með rannsóknargögnum sendir rannsóknari að jafnaði greinargerð um rannsóknina þar sem kemur fram samandregin lýsing á atriðum sem hann telur ákæru geta beinst að.” (undirstrikun mín)

Sjá má að fyrri málsliðir 1. mgr. 57. gr. sml. og 1. mgr. 77. gr. oml. eru efnislega eins.  Síðari málsliðir ákvæðanna eru nánast eins en í oml. er sagt berum orðum að fram skuli koma, í greinargerðinni sem um ræðir, lýsing á atriðum sem talið er að ákæra geti beinst að.  Í athugasemdum með 1. mgr. 57. gr. sml. er vísað til 1. mgr. 77. gr. oml. og er í athugasemdunum engin vísbending um að stefnt sé að breytingu á fyrirkomulaginu.

Um ákvæðið í 1. mgr. 77. gr. sagði svo í athugasemdum við frumvarp til laga um meðferð opinberra mála:

„Það nýmæli er í 1. mgr. 77. gr. að rannsóknari skuli í lok skýrslu sinnar draga saman hvað hann telur rannsókn hafa leitt í ljós af atriðum er leitt geti til saksóknar. Með því yrði þeim ákæranda sem taka á ákvörðun um saksókn auðveldað mjög að setja sig inn í rannsóknina og átta sig á hvað þar hafi komið fram (undirstrikun mín). Orðin „að jafnaði“ í málsgreininni veita svigrúm til þess að slíkri samantekt verði sleppt þegar um einföld mál er að ræða þar sem augljóst er að hverju rannsóknin hefur beinst. Ekki hefur þótt rétt að setja í lög nánari reglur um form og gerð greinargerðar þessarar, heldur þykir rétt að þær mótist í framkvæmd. Vísað er hér til heimildar í 1. mgr. 27. gr. til handa ríkissaksóknara til þess að setja almennar reglur um framkvæmd rannsóknar.”

Undirstrikuðu orðin í athugasemdunum segja allt sem segja þarf um efni og tilgang „nýmælisins“ sem er undanfari ákvæðisins í síðari málslið 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 56. gr. sml.  Greinargerðin eða samantektin var vinnuskjal ætlað til nota innan lögreglu og ákæruvalds í hagræðingar- og hagkvæmnisskyni. Ekkert átti þó að vera því til fyrirstöðu að hlutlæg greinargerð eða samantekt um rannsóknina væri afhent verjanda og dómara til að auðvelda lestur gagna í umfangsmiklum málum.

6.         Fyrirmynd 1. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1991 og fyrirmæli ríkissaksóknara

Fyrirmynd „nýmælisins” í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1991 er að finna í norska „påtaleinstruksen”, §22-2, 4. og 5. mgr., þar sem segir m.a. að fylgja skuli drög að ákæru (siktelse) með málsgögnum sem send eru, að lokinni rannsókn, frá lægra settum ákæruvaldshafa til ofar setts, þegar hið lægra setta skortir heimild til að höfða mál með ákæru, en telur efni til málshöfðunar.

Á sínum tíma, líklega um 1996, lagði ríkissaksóknari fyrir lögreglustjóra að skila greinargerðinni, sem nefnd er í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1991, í formi draga að ákæruskjali, þegar mál var sent frá lögreglustjóra til ríkissaksóknara til væntanlegrar málshöfðunar.

Í fyrirmælum sem ríkissaksóknari gaf út 17. október 2009, RS:12/2009 (sjá vefsíðu ríkissaksóknara), varðandi mál sem send eru ríkissaksóknara til ákærumeðferðar, sem ber yfirskriftina Samantekt ákæranda, segir í III. kafla:

„Máli skal fylgja samantekt ákæranda um sönnunarstöðu málsins, en þar komi fram hvort það sé líklegt til sakfellis og þá að hvaða broti/brotum ákæra gæti beinst.

Auk þess skal tiltaka þau atriði sem ákærandi telur að geti haft áhrif á málshöfðun, t.d. mikilvæg sönnunargögn, fjölda vitna, myndbandsupptökur, tæknirannsóknir o.s.frv. Samantekt þessi skal ekki vera meðal skjalmerktra rannsóknargagna.“

7.         Rannsóknargögn eru umfangsmeiri en sönnunargögn

Samkvæmt texta 2. málsliðar 1. mr. 57. gr. sml. er skýrsla um rannsóknina samkvæmt 1. mgr. 56. gr. ekki rannsóknargagn í máli en lögreglustjóra ber að senda hana með rannsóknargögnum til ofar setts ákæranda. Þar eð skýrslan tilheyrir ekki rannsóknargögnum getur hún varla talist sönnunargagn. Hafa ber í huga að  rannsóknargögn í máli kunna að vera mun fleiri og umfangsmeiri heldur en þau afmörkuðu gögn sem ákæruvaldið byggir ákæru sína á og leggur fram sem sönnunargögn í málinu. 

Á árinu 1999 var á vegum Dómstólaráðs og ríkissaksóknara gengið frá eins konar umgengisreglum sem báru yfirskriftina Samkomulag um samskipti ákæruvalds og héraðsdómstóla. Sá sem þetta ritar veit ekki hvort þetta samkomulag hafi verið fellt niður eða því breytt.  Í 2. gr. samkomulagsins var fjallað um framlagningu gagna.  Þar sagði í 1. mgr:

„Framlagning skjala í stærri sakamálum skal vera með þeim hætti að sérstaklega eru lögð fram í áframhaldandi töluröð eða með áframhaldandi blaðsíðutali þau skjöl sem kröfur og sönnunarfærsla ákæruvaldsins byggist á. Skjölin skulu lögð fram í sömu röð og ákæruliðir sé fleiri en einum til að dreifa. Önnur gögn sem fylgja ákæru verða þá ekki lögð fram með sama hætti, nema sérstök ákvörðun verði tekin um það og þá lögð fram í áframhaldandi númeraröð eða blaðsíðutali.“  (undirstrikun mín)

Í þessu fólst að ákæruvaldið skyldi einungis leggja fram sönnunargögn, en þau rannsóknargögn málsins sem ákæruvaldið taldi ekki til sönnunargagna, sbr. 3. málslið, áttu að fylgja með til dómsins og þaðan til varnaraðila. Var ráð fyrir því gert að varnaraðili gæti komist að þeirri niðurstöðu, eftir athugun á rannsóknargögnum sem ákæruvaldið legði ekki fram, að eitt eða fleiri þeirra rannsóknargagna bæri að leggja fram sem sönnunargagn.

 Með því að leggja þá skyldu ákæruvaldinu á herðar að greina á milli sönnunargagna sem kröfur og sönnunarfærsla ákæruvaldsins byggðist á og annarra rannsóknargagna máls átti að draga úr því mikla magni gagna sem lá gjarnan frammi fyrir dómi í „stærri sakamálum“. Að sjálfsögðu er þetta í samræmi við meginreglur réttarfarslaga og styrkir réttaröryggi.  Dómur verður ekki reistur á öðrum gögnum en þeim sem flutt eru fram sem sönnunargögn og hafa fengið umfjöllun sem slík við dómsmeðferðina.  Jafnframt átti þetta að létta dómurum störfin sem eftirleiðis þyrftu ekki að brjótast í gegnum rannsóknargögn sem ekki voru sönnunargögn í máli.

III.       Dómsúrlausnir

Nokkrir dómar og úrskurðir sem gengið hafa á síðustu misserum hafa gefið 1. mgr. 56. gr. sml. annað inntak og annan tilgang en lesa má, samkvæmt framan röktu, út úr texta 1. mgr. 56., sbr. 1. mgr. 57. gr. ásamt viðeigandi athugasemdum með frumvarpi til sml.  Þá hefur skýrsla lögreglu samkvæmt 1. mgr. 56. gr. m.a. verið talin hluti af sönnunargögnum máls.

Skýrslu samkvæmt 1. mgr. 56. gr. sml. er getið í hæstaréttardómum í málum nr. 135/2010, nr. 609/2012 og nr. 59/2013, í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var með hæstaréttardómi í máli nr. 707/2013 í hæstaréttardómi nr. 145/2014 og e.t.v. fleiri hæstaréttardómum.  Hér er þó ekki ástæða til að víkja að nefndum dómum heldur að tveimur öðrum dómsúrlausnum, þ.e. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. maí 2012, sbr. hæstaréttardóm í máli nr. 325/2012 og dómi Hæstaréttar í máli nr. 703/2012 þar sem er að finna afdráttarlausa lýsingu á efni og hlutverki 1. mgr. 56. gr. sml.

1.         Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2012, sbr. hæstaréttardóm í máli nr. 325/2012.

Samkvæmt úrskurðinum höfðu ákærðu í málinu m.a. krafist þess að úrskurðað yrði að ákæruvaldinu væri ekki heimilt að leggja fram sem sönnunargagn skýrslu sem lögregla hafði gert, sbr. 1. mgr. 56. gr. sml. og jafnframt að skýrslan yrði felld úr skjölum málsins. „Verði hvorki ráðið af þessu ákvæði laganna né öðrum ákvæðum þeirra að ráð sé fyrir því gert að greinargerð rannsakenda sé lögð fram sem sönnunargagn fyrir dómi“ segir í úrskurði héraðsdóms um kröfugerð ákærðu.

Skýrslu eða greinargerð lögreglunnar er lýst með eftirfarandi orðum í úrskurðinum:

Gögn málsins eru mikil að vöxtum, rúmar 6000 blaðsíður af margvíslegum skjölum, þ. á m. skýrslum um yfirheyrslur sakborninga og vitna, afriti tölvuskeyta og m. fl.  Meðal gagnanna er að finna 127 blaðsíðna hefti með titlinum „Greinargerð rannsakenda í máli [...], samanber 56. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008“, sem lögð var fram þegar málið var þingfest.  Skýrsla þessi er ítarlegt yfirlit um lögreglurannsóknina með athugasemdum rannsakenda um sönnunargögnin en einnig um ýmisleg lagaatriði.“

Héraðsdómur hafnaði kröfu ákærðu, um að óheimilt væri að leggja greinargerð rannsakenda fram, með eftirfarandi rökum:

„Enda þótt skýrsla þessi geti sjálf ekki beinlínis talist sönnunargagn um sakarefni málsins verður að líta á hana sem inngang eða lykil að hinu mikla safni sönnunargagna sem ákæruvaldið hefur lagt fram í málinu og telja hana því vera hluta af því.  Var það því háð mati ákæruvaldsins hvort hún var lögð fram í málinu eða ekki, sbr. 1. og 2. mgr. 134. gr. laga um meðferð sakamála.  Þess er ennfremur að gæta að ákærðu eiga þess allan kost að koma að athugasemdum um efni skýrslunnar við málsmeðferðina.  Loks er á það að líta að í lögum um meðferð sakamála er ekki að finna heimild til þess að fella úr gögnum máls skýrslur eða gögn sem lögð hafa verið fram í því á dómþingi.  Ber að synja kröfu ákærðu um að umrædd greinargerð á dómskjali nr. 11 verði felld úr skjölum málsins.“

Eins og rakið hefur verið hér að framan hefði mátt ætla, samkvæmt lögskýringargögnum, að skýrsla samkvæmt 1. mgr. 56. gr., sbr. 1. mgr. 57. gr., væri fyrst og fremst vinnugagn lögreglu og ákæruvalds.  Með dómi sínum 10. desember 2012 í máli nr. 703/2012, sem vikið verður að hér á eftir, lýsti Hæstiréttur allt öðru hlutverki og inntaki hennar.

Ljóst er að skýrslan sem um ræðir í úrskurði héraðsdóms er rituð eftir að rannsókn lýkur og hefur að geyma yfirlit um lögreglurannsóknina með athugasemdum þeirra sem rannsókn önnuðust.  Slík skýrsla getur ekki talist til sönnunargagna í máli en kann að vera gagnlegt vinnuskjal ákæruvalds. Varla má dómstóll varpa frá sér rétti og/eða skyldu til þess ex officio eða samkvæmt kröfu aðila að afstýra því að lögð séu fram í máli gögn sem ekki teljast vera sönnunargögn.

Ákærandi leggur fram skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn, sem aflað hefur verið við rannsókn og sönnunargildi hafa að hans mati,  segir í 2. mgr. 134. gr. sml., sem héraðsdómur vísar til.  Samkvæmt ákvæðinu hefur ákærandi vissulega mat um það hvaða gögn hann telur hafa sönnunargildi í máli, en forsenda þess að honum beri þetta mat á gögnum, er að þeirra hafi verið aflað við rannsókn málsins.  Skýrsla eða samantekt sem lögregla eða ákæruvald gerir eftir að rannsókn lýkur og fjallar um rannsóknina, sbr. 1. mgr. 56. gr. sml., er ekki sönnunargagn í máli, eins og áður segir.  Hafi slík  samantekt  m.a. að geyma athugasemdir um sönnunargögnin sem hún er byggð á og ýmislegt um lagaatriði máls virðist hún öðrum þræði greinargerð, ef hún er lögð fram í máli.  Ákæruvaldið hefur ekki heimild til að leggja fram sérstaka greinargerð með sönnunargögnum máls og á ekki að gera það.  Verður framlagning greinargerðar ekki réttlætt með þeim rökum að ákærði eigi þess kost að koma að athugasemdum um efni greinargerðarinnar eða samantektarinnar við eftirfarandi málsmeðferð. 

Álitaefnið, sem hér er fjallað um, var  hvort ákæruvaldinu væri heimilt að leggja fram umrædda „greinargerð rannsakenda“ sem sönnunargagn.  Óhjákvæmilegt skilyrði þess að gögnin yrðu fjarlægð úr gagnasafninu var að héraðsdómur kæmist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að leggja greinargerðina fram.  Með því að bera fram þau rök, fyrir synjun á kröfu ákærðu, að ekki sé að finna í lögum heimild til þess að fjarlægja úr gögnum máls skýrslur eða gögn sem lögð hafa verið fram á dómþingi, eins og héraðsdómur gerir, virðist dómurinn gefa til kynna að ekki sé unnt að vísa burt gögnum, sem tekist hefur að leggja fram á dómþingi, þótt óheimilt hafi verið að leggja þau fram á sínum tíma, t.d. við þingfestingu máls.

Í dæmaskyni skal bent á 4. mgr. 134. gr. sml., en samkvæmt því ákvæði er óheimilt að leggja fram skjöl eða annars konar gögn sem hafa að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli.  Spyrja má hvort hugsanlegt sé að ekki verði mögulegt að fjarlægja slík gögn úr gagnasafni máls eftir að þau hafa verið lögð fram á dómþingi  án þess að dómari og sakborningur eða verjandi hans hafi áttað sig á efni þeirra þegar þau voru lögð fram?  Varla verður niðurstaðan sú að heimild skorti til að fjarlægja gögnin úr framlögðu gagnasafni; dómari hlýtur að geta látið fjarlægja þau gegn andmælum þess sem lagði þau fram.

Ákæra í máli skal send héraðsdómi ásamt sýnilegum sönnunargögnum og með á að fylgja skrá yfir gögnin, sbr. 1. og 2. málslið 154. gr. sml.  Ætla verður að skrá yfir gögn hafi fylgt ákæru í umræddu máli eins og þarna er mælt fyrir um. Hvergi kemur fram í lögunum að skýrsla, gerð samkvæmt 1. mgr. 56. gr., skuli fylgja ákæru og sönnunargögnum til héraðsdóms.

Úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur  var skotið til Hæstaréttar, mál nr. 325/2012. Þar taldi meirihluti réttarins, tveir af þremur dómurum, að úrlausn héraðsdóms um að hafna kröfu ákærðu um að fella skýrslu lögreglunnar úr gögnum málsins sætti ekki kæru til Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 192. gr. sml.  Var kröfu ákærðu því vísað frá Hæstarétti og ekkert fjallað um hvort heimilt hefði verið að leggja „greinargerð rannsakenda“ fram.

Minni hluti Hæstaréttar, einn dómari, taldi kröfu ákærðu varða ágreining um „heimild til að leggja fram sönnunargagn“ eins og það er orðað í p. lið 1. mgr. 192. gr. sml. og bæri Hæstarétti því skylda til að taka efnislega afstöðu til kröfu ákærðu.

Álit minnihlutans virðist vera rökrétt enda er því lýst hér að framan að álitaefnið var, hvað þennan þátt í úrskurði héraðsdóms varðar, hvort leggja mætti margnefnda „greinargerð rannsakenda“ fram.

2.         Hæstaréttardómur 10. desember 2012 í máli nr. 703/2012, kærumál

Kærður var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem vísað var frá dómi tilteknum ákæruliðum í máli ákæruvaldsins gegn varnaraðilum.  Í dóminum fjallaði Hæstiréttur um efni 1. mgr. 56. gr. sml. með afgerandi hætti. Var sá þáttur í úrskurði héraðsdóms sem laut að greinargerð lögreglu samkvæmt 1. mgr. 56. gr. sml. þó ekki til endurskoðunar.

Umfjöllun Hæstaréttar um 1. mgr. 56. gr. sml. er í III. kafla hæstaréttardómsins og verður farið yfir hana hér.

Í 1. mgr. III. kafla hæstaréttardómsins segir m.a. að skýrsla samkvæmt 1. mgr. 56. gr. sem hafi að geyma yfirlit um rannsóknaraðgerðir og samantekt á því, sem komið hefur fram við rannsókn, „...sé hluti sönnunargagna og því sé ákæruvaldinu heimilt og eftir atvikum skylt að leggja hana fram  við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. og 2. mgr. 110. gr., sbr. og 3. mgr. 18 gr. laga nr. 88/2008“.

Meginregla er að ákæruvaldið leggi fram sönnunargögn, sem aflað hefur verið við rannsókn, sbr. 134. og 154. gr. sml.  Með því að skýrsla samkvæmt 1. mgr. 56. gr. er ekki rannsóknargagn – því síður sönnunargagn - og getur aldrei orðið annað en yfirlit um rannsókn máls og  rannsóknargögn, ætti ákæruvaldinu hvorki að vera rétt né skylt að leggja slíka skýrslu fram, nema komist sé að þeirri niðurstöðu að hún eigi að fylgja sönnunargögnum með ákæru samkvæmt reglu 2. málsliðar 154. gr. sml.

Rétt þykir að taka 2. mgr. III. kafla hæstaréttardómsins upp í heild:

„Skýrsla samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 er ekki málsóknarskjal í sakamáli á sama hátt og ákæra. Af þeim sökum eiga þar ekki að koma fram hugleiðingar þess, sem rannsakað hefur málið, á borð við það hver hin ætlaða refsiverða háttsemi sé, hvaða refsiákvæði kunni að hafa verið brotin í ljósi framburðar sakbornings og vitna og hverja séu rök til að ákæra í málinu. Séu slík skjöl tekin saman af þeim sem rannsaka mál eða taka ákvörðun um ákæru er ekki um sönnunargagn að ræða og ákæruvaldinu ekki skylt að leggja það fram við meðferð sakamáls, sbr. dóm Hæstaréttar 3. október 2012 í máli nr. 609/2012. Því síður á við í skýrslu, sem hér um ræðir, að vísa til fræðirita og dómsúrlausna, svo og til hugsanlegra varna af hálfu sakbornings, verði hann ákærður, enda á sakaður maður þess fyrst kost að tefla fram vörnum af sinni hálfu eftir að ákæra hefur verið gefin út á hendur honum, eftir atvikum í skriflegri greinargerð samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008. Þau atriði, sem rakin hafa verið að framan, eiga eftir því sem við á að koma fram í ákæru og síðar í munnlegum málflutningi ákæruvalds fyrir dómi.

Skýrsla rannsakenda í máli þessu, sem sögð er tekin saman á grundvelli 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008, hefur að geyma fjölmörg atriði sem samkvæmt framansögðu eiga ekki heima í slíkri skýrslu. Þótt þetta sé aðfinnsluvert leiða þessir annmarkar ekki til frávísunar málsins, enda hafa varnaraðilar og aðrir ákærðu átt þess kost að koma að andmælum og vörnum í greinargerðum sínum samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laganna og fá frekara tækifæri til þess við aðalmeðferð málsins, þar á meðal við munnlegan flutning þess fyrir dómi.“

Athygli vekur að í þessari útlistun Hæstaréttar á efni 1. mgr. 56. gr. sml. er ekki vikið að efni 1. mgr. 57. gr. og athugasemdum með frumvarpi til sml. þar sem vísað er til  1. mgr. 77. gr. oml. eins og gerð hefur verið grein fyrir að framan.  Þeir starfsmenn lögreglustjóra sem önnuðust rannsókn umfangsmikilla mála voru vanir því að skrifa greinargerð um rannsóknina, draga saman hvað þeir töldu rannsókn hafa leitt í ljós af atriðum er réttlætti málshöfðun og þá með skírskotun til refsiákvæða, sbr. fyrirmæli ríkissaksóknara RS:12/2009.  Ekki þótti verra að bent væri á fræðirit og dómafordæmi.  Hins vegar átti ákæruvaldið ekki að leggja slíka greinargerð fram sem sönnunargagn í máli.

Eins og ráða má af niðurlagi tilfærðs þáttar úr hæstaréttardóminum var skýrslu rannsakenda ekki ýtt út úr málinu þrátt fyrir þá ágalla sem rétturinn taldi vera á henni.

IV.       Lokaorð – Tillögur  

  1. 1. mgr. 56. gr. sml. þarf að endursemja og er réttast að efni hennar verði eins og 1. mgr. 72. gr. oml. var, sbr. 744. gr. dönsku réttarfarslaganna.
  2. Síðari málslið 1. mgr. 57. sml. þarf að endursemja og er réttast að efni ákvæðisins verði eins og síðari málsliður 1. mgr. 77. gr. oml. var.
  3. Nýju ákvæði, áþekku því sem er i 4. málslið 2. mgr. 205. gr. sml., verði bætt inn í sml.  Texti verði eitthvað á þá leið að dómari geti beint því til ákæranda að afhenda ítarlegt yfirlit um rannsókn máls í tímaröð og um sönnunargögn.
    • Um 1.  Óhjákvæmilegt er að lagfæra 1. mgr. 56. gr. sml. og er þetta einfaldasti kosturinn.  Verði haldið fast við túlkun Hæstaréttar á lagaákvæðinu er samt nauðsynlegt að gera bragarbót.  Ástæðulaust er að taka saman skýrslu um rannsókn í einföldum málum; nægilegt er að mæla fyrir um að lögreglan/ákæruvaldið taki að jafnaði eða að beiðni dómara saman skýrslu um rannsókn og rannsóknargögn. 
  • Ennfremur er nauðsynlegt, ef túlkun Hæstaréttar stendur áfram, að bæta inn nýju ákvæði sem hafi að geyma efni 1. mgr. 72. gr. oml. þ.e. til að tryggja órofið samhengi í málum hjá lögreglu og ákæruvaldi. Einnig væri rétt að taka fram í 154. gr. að skýrsla samkvæmt 1. mgr. 56. skuli fylgja ákæru.
  •  Um 2. Þetta er í eðlilegu samhengi við 1. lið.
  • Standi túlkun Hæstaréttar á 1. mgr. 56. gr. sml. áfram er rétt að fella síðari málslið 57. gr. út. Hann hefur enga þýðingu ef skýrslan samkvæmt 1. mgr. 56. gr. er hluti sönnunargagna og getur málsliðurinn einungis valdið misskilningi.
  • Um 3.  Telja má víst að það verði regla að ákærendur/lögregla semji hlutlægt yfirlit um rannsókn, rannsóknaraðgerðir og sönnunargögn í umfangsmiklum málum, sem þeir láti verjanda og dómara í té.  Dómarar munu því ekki þurfa að beita þessari heimild sem þó þykir rétt að verði lögfest.