Faglegt efni

Atlagan gegn fjárfestingum - skattlagning arðgreiðslna

12.2.2012

Verulegar breytingar á íslensku skattkerfi hafa einkennst af meira kappi en forsjá, en slíkar örar og vanhugsaðar skattbreytingar hafa beinlínis hrakið fyrirtæki með miklar skatttekjur úr landi. Lögfesting svokallaðaðrar 20/50 reglu, gerði fjárfestingar í eigin atvinnurekstri sérstaklega óhagstæðar og hefur haft umtalsverð áhrif á næstum öll lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi þannig að nú er landsmönnum refsað fyrir fjárfestingar og atvinnusköpun með aukinni skattbyrði. 

Líkt og flestum eru kunnugt hafa verið gerðar verulegar breytingar á íslensku skattkerfi frá  ársbyrjun 2009. Við blasti að með falli bankanna og tilheyrandi áhrifum þess á íslenskt efnahagslíf yrði ríkissjóður fyrir verulegum tekjumissi. Þá mátti á sama tíma búast við að ýmis útgjöld til velferðamála myndu hækka, s.s. vegna atvinnuleysistrygginga. Telja verður að við þessar aðstæður hafi hækkun skatta sumpart verið nauðsynleg þó svigrúm hafi verið til niðurskurðar eftir gríðarlega aukningu ríkisútgjalda síðustu árin, auk þess sem ríkissjóður var skuldlítill þegar bankarnir féllu. Eins og undirritaðir hafa áður gagnrýnt hafa skattabreytingar síðustu þriggja ára einkennst meira af kappi en forsjá. Örar og vanhugsaðar skattabreytingar hafa hrakið fyrirtæki með miklar skatttekjur úr landi, hækkað vaxtakostnað íslenskra fyrirtækja og haft bein áhrif á fjárfestingar í atvinnulífinu. Þær breytingar sem hafa stuðlað að framangreindu hafa lítið með hækkun skatthlutfalla að gera heldur gætir áhrifa þeirra meira gegnum tæknilegar breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu. Fyrir liggur að margar þessara tæknilegu breytinga ráðast af hugsjón stjórnmálamanna í fjármálaráðu­neytinu fremur en þörf fyrir auknar tekjur enda hafa þær oft í reynd áhrif til lækkunar tekna. Fjölmargir sérfræðingar og hagsmunaaðilar hafa varað við mörgum þessara breytinga með umfangsmiklum og ítarlega rökstuddum athugasemdum til efnahags- og skattanefndar Alþingis. Því miður hefur lítið sem ekkert mark hefur verið tekið á þeim athugasemdum.

Í kjölfar þeirra efnahagshremminga sem fylgdu falli bankanna hefur atvinnuleysi á Íslandi verið í áður óþekktum hæðum og fjárfesting í atvinnulífinu verið í sögulegu lágmarki. Þrátt fyrir það voru í lok árs 2009 samþykkt lög sem gerðu fjárfestingar í eigin atvinnurekstri sérstaklega óhagstæðar (nr. 128/2009) og í byrjun sumars 2011 var aukið enn á óhagræði þeirra með nýjum lögum (nr. 73/2011).  Almennt er vísað til þessara lagabreytinga sem 20/50 reglunnar. Sú regla gengur í stuttu máli út á það að úthlutaðan arð til einstaklinga sem vinna við eigin atvinnurekstur, umfram 20% af skattalegu eigin fé, skuli skattleggja þannig að 50% teljist til launatekna og 50% til fjármagnstekna. Þessi nýja regla hefur umtalsverð áhrif á næstum öll lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi.

Flest ríki heims skattleggja fjármagnstekjur lægra en hefðbundnar launatekjur, m.a. til að hvetja til fjárfestinga, verðlauna áhættutöku sem leiða kann til atvinnusköpunar og vegna þess að raunskattlagning teknanna er mun hærri en skatthlutfallið segir til um þar sem hagnaður af tekjunum er fyrst skattlagður hjá þeim fyrirtækjum sem fjárfest er í. Almennt gildir sú regla að þegar skatthlutfall fjármagnstekjuskatts er hátt er heimilt að draga ýmsa liði, s.s. vaxtakostnað, frá fjármagnstekjustofninum en þegar það er lægra eru fáir eða engir frádráttarliðir. Á Íslandi hefur hins vegar myndast sú staða að skatthlutfallið er hátt og frádráttarliðir fáir. 

Sú breyting var gerð á framangreindri 20/50 reglu s.l. sumar að þótt arðgreiðslurnar væru skattlagðar líkt og um laun væri að ræða er félaginu sem greiðir arðinn ekki heimilaður frádráttur frá tekjuskattsstofni. Slíkt veldur því að raunskattlagning teknanna er enn hærri og það eykur frekar á aðstöðumun milli fjárfestingar í eigin fyrirtækjarekstri og annarra fjárfestinga.

Dæmi:

Fjárfest í ríkisskuldabréfum (ekki horft á 100.000 kr. frítekjumark).

Tekjur: 1.000.000 kr.

Skattur: 200.000 kr.

Nettó greiðsla eftir skatt: 800.000 kr.

Raunskattlagning: 20% (var áður 10%)

Fjárfest í atvinnurekstri annarra:

Tekjur: 1.000.000 kr.

Skattur fyrirtækis: 200.000 kr. (20%)

Skattur einstaklings: 160.000 kr. (20% af kr. 800.000 í arðgreiðslu)

Nettó greiðsla eftir skatt: 640.000 kr.

Raunskattlagning: 36% (var áður 23,5%)

Fjárfest í eigin atvinnurekstri (gert ráð fyrir að skattalegt eigið fé sé kr. 1.000.000):

Tekjur: 1.000.000 kr.

Skattur fyrirtækis: 200.000 kr. (20%)

Skattur einstaklings fjármagnstekjuskattur 1: 40.000 kr. (20% af kr. 200.000)

Skattur einstaklings fjármagnstekjuskattur 2: 60.000 kr. (20% af kr. 300.000)

Skattur einstakling á launatekjur: 12.072 (40,24% af kr. 300.000)

Nettó greiðsla eftir skatt: 57.928 kr.

Raunskattlagning: 42,07% (var áður 23,5%)

Við skoðun á framangreindum dæmum ber að hafa í huga að raunskattlagning launatekna er, vegna áhrifa persónuafsláttar, mun lægri en skatthlutföllin 37,34-46,24% gefa til kynna. Raunverulegt skatthlutfall tekna upp á kr. 500.000 er þannig 28,16% og tekna að fjárhæð kr. 1.600.000 tæplega 38,5%. Sú staða er því komin upp að launatekjur eru almennt skattlagðar lægra en fjármagnstekjur þannig að ólíkt öðrum löndum refsum við nú landsmönnum fyrir fjárfestingar og atvinnusköpun með aukinni skattbyrði.

Af þessu má sjá að rök forsvarsmanna núverandi ríkisstjórnar um að lagabreytingin jafni stöðu launþega og þeirra sem hafa fjármagnstekjur af eigin atvinnurekstri halda ekki vatni enda hafði slík jöfnun þegar átt sér stað með hækkun fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts á fyrirtæki. Í ljósi áhættutöku af eigin atvinnurekstri má líka deila um hversu eðlilegt er að leitast við slíka jöfnun og hvað þá að ganga svo langt að auka ójöfnuðinn í hina áttina.

Áhrif 20/50 reglunnar eru margþætt, en þar má m.a. nefna að hún skapar hvata til að fjármagna félög fremur með lánveitingum í stað eigin fjár og að fjárfesta í skuldabréfum og innlánum fremur en fyrirtækjarekstri en hið síðasttalda er til þess fallið að fjölga störfum og hækka laun. Augljóst er að 80% hækkun skattlagningar á fjárfestingu í eigin atvinnurekstri hefur haft áhrif á atvinnulífið. Æskilegt væri að alfarið yrði horfið frá 20/50 reglunni og í stað hennar yrðu reglur um reiknað endurgjald endurskoðaðar og þá miðað í auknum mæli við raunverulegan hagnað fyrirtækja.