Faglegt efni

Hagstætt skattkerfi = erlend fjárfesting

5.4.2012

Erlend fjárfesting á Íslandi er í sögulegu lágmarki. Á hinu fámenna og afskekkta Íslandi virðast stjórnvöld trúa því að erlendir fjárfestar hafi áhuga á að stunda hér starfsemi án nokkurs skattalegs hvata. Þvert á móti þurfa skattyfirvöld að víkja frá þröngri og íhaldsamri túlkun skattalaga og ganga lengra í því að setja ívilnandi reglur án þess það gangi gegn skuldbindingum skv. EES-samningnum.

Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um skort á erlendri fjárfestingu hér á landi og bent á að hún sé, eins og innlend fjárfesting, í sögulegu lágmarki. Hér innanlands og raunar einnig í erlendum fréttamiðlum er Ísland oft borið saman við Írland en hinu síðarnefnda hefur tekist að laða að sér erlenda fjárfestingu með góðum árangri. Meðal þeirra sem starfa við skattamál hefur auðvitað mikið verið rætt um hvað við séum að að gera rangt í þessum efnum.

Mörg minni samfélög, sem þó eru flest stærri en Ísland, hafa séð sér hag í því að tryggja að skattkerfi þeirra laði að erlendar fjárfestingar og þau séu þannig samkeppnishæf við stærri hagkerfi sem bjóða upp á meiri mannauð og stærri markaði. Sum þessi lönd ganga lengra en önnur en sem dæmi um ríki innan Evrópusambandsins má í því sambandi nefna Írland, Möltu, Lúxemborg og Kýpur. Það sem öll þessi lönd eiga sameiginlegt er að þau sjá hag í því að breikka skattstofninn eins og kostur er fremur en að skattpína sína fáu íbúa.

Sem dæmi um stærri lönd innan Evrópusambandsins sem hafa líka séð hag sinn í að laða að erlent fjármagn í gegnum hagstæðar skattareglur eru Bretland, Belgía og Holland. Þá eru síðan ónefnd öll önnur lönd utan Evrópusambandsins sem hafa séð hag sinn í að sníða skattkerfi sín í sama tilgangi.

Af einhverjum ástæðum virðast stjórnvöld á Íslandi ekki sjá þennan sama hag af hagstæðum skattareglum, þrátt fyrir að við séum jafnvel smærri og afskekktari en þau ríki sem nefnd voru hér að framan. Stjórnvöld virðast trúa því að erlendir aðilar sjái hag sinn í því að stunda starfsemi hér á landi án nokkurs skattalegs hvata. Eðlilegt er að stærri markaðir geti leyft sér að treysta því að starfsemi blómstri án nokkurs hvata, líkt og Bandaríkin, Þýskaland og önnur stærri ríki heimsins. Ástæða þess er auðvitað sú að markaðurinn er stór og margt er að sækja til slíkra ríkja annað en skattalegt hagræði.

Bæði íslenski löggjafinn og íslensk skattyfirvöld virðast afar upptekin af því að engar sérreglur skuli setja til þess að laða að erlendar fjárfestingar. Í því sambandi skal þó tekið fram að skattyfirvöld virðast hafa mikil áhrif á löggjafann við setningu laga. Þannig virðumst við oft líta svo stórt á okkur að við eigum að halda fast í þær meginreglur sem settar hafa verið af stærri ríkjum heimsins, sem henta ágætlega fyrir þau. Oft eru rökin þau að sérreglur kunni annars vegar að vera stílbrot í íslenska skattkerfinu og í öðru lagi að slíkar reglur kunni að brjóta í bága við EES-samninginn. Af einhverjum ástæðum þá hafa þessi tvö atriði ekki truflað önnur ríki sem eru þó meira að segja aðilar að Evrópusambandinu sjálfu, ólíkt okkur. Þetta þarf ekki að koma á óvart enda er afar auðvelt að setja ívilnandi reglur án þess það hafi nokkur áhrif á skattkerfið í heild né gangi gegn skuldbindingum skv. EES-samningnum. Í því sambandi má jafnframt nefna að framin hafa verið nokkuð mörg stílbrot á íslensku skattkerfi sl. 3 ár. Þau stílbrot eiga það hins vegar sammerkt að hafa hamlandi áhrif á fjárfestingar. 

Í þeim tilvikum sem reynt hefur verið að setja ívilnandi reglur hér á landi höfum við yfirleitt sýnt þá sérkennilegu varfærni að ganga aðeins skemur en nágrannalönd okkar. Annað hvort með lagasetningunni sjálfri eða gríðarlega þröngri og íhaldsamri túlkun skattyfirvalda á lögunum. Það gefur auga leið að ef við ætlum okkur eitthvað í þessum efnum þá verðum við einmitt að ganga aðeins lengra en nágrannalönd okkar enda vegum við aðeins þannig upp þá staðreynd að við erum fámenn og afskekkt eyja.

Það skal skýrt tekið fram að hér er ekki verið að fjalla um reglur sem líkja mætti við svonefnd „skattaskjól“ en það hugtak hefur í opinberri umræðu verið misskilið, meðvitað eða ómeðvitað. Lönd sem fallið gætu undir það hugtak innheimta almennt enga skatta og gera engar kröfur um ársreikninga eða skattframtöl. Það á augljóslega ekki við um ríki innan Evrópusambandsins. Með þessari grein er hins vegar bent á að ef einhver vilji er til þess er hægt að laða að erlendar fjárfestingar með hagstæðu skattkerfi líkt og flest smærri ríki í kringum okkur sjá hag sinn í að gera.