Faglegt efni

Atlagan gegn fjárfestingum – skattlagning vaxtagreiðslna

6.3.2012

Undirritaðir boðuðu frekari umfjöllun um það sem virðist kerfisbundin atlaga stjórnvalda að fjárfestingum í íslensku atvinnulífi. Í þessari grein er lagt fram enn eitt dæmi um sérkennilega, og skemmandi stefnu í skattamálum sem hefur verið við líði sl. þrjú ár.

Rétt fyrir kosningar í mars 2009  lagði fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fram eitt af mörgum frumvörpum til breytinga á skattalögum. Ein af tillögunum var sú að lagður yrði afdráttarskattur á vexti sem greiddir væru úr landi. Tilgangur þessa nýja skatts var skv. frumvarpinu í fyrsta lagi að draga úr undanskotum og í öðru lagi átti hann að skila tekjum í ljósi mikillar skuldsetningar Íslendinga. Þrátt fyrir síðara atriðið kom þó sérstaklega fram að ekki mætti gera ráð fyrir að tekjur yrðu verulegar enda hefði Ísland gert tvísköttunarsamninga við helstu viðskiptalönd sín.

Fram kom mikil gagnrýni á þennan nýja skatt frá hagsmunaaðilum og sérfræðingum á sviði skattamála. Gagnrýnin fólst m.a. í því að almennt væru lánasamningar þannig útfærðir að lántaki bæri hvers kyns afdráttarskatta af vaxtagreiðslum en ekki erlendir kröfuhafar. Hinn nýi skattur myndi því falla á skuldsett íslensk fyrirtæki auk þess sem lánamöguleikar íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum myndu takmarkast verulega. Sérstaklega má benda á að skattlagningin útilokar svo til skuldabréfa­útboð íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum með þátttöku alþjóðlegra fjárfesta. Af þessum ástæðum heyrir það til undantekninga að vestræn ríki leggi afdráttarskatt á vexti og hefur Evrópu­sambandið m.a. sett sérstaka reglugerð til að tryggja að slík skattlagning eigi sér ekki stað milli aðildarríkjanna.

 Í ljósi þessarar gagnrýni lagði efnahags- og skattanefnd til að ákvæðið yrði ekki lögfest með eftirfarandi rökum:

Öndvert við það sem nefndin tók fram í áliti sínu fyrir 2. umræðu málsins töldu Viðskiptaráð og fulltrúar þeirra orkufyrirtækja og endurskoðunarskrifstofa sem nefndin ræddi við að ákvæði tvísköttunar­samninga mundu í mörgum tilvikum ekki girða fyrir að skatturinn legðist á hinn erlenda lánveitanda, skattbyrði sem á endanum yrði borin af innlendum lántaka. Lánsfjármagns væri þar að auki víðar að leita en í ríkjum sem gerðir hafa verið tvísköttunarsamningar við.

Nefndin telur að framangreindar athugasemdir gefi tilefni til að skoða betur hver áhrif 1. gr. frumvarpsins geti haft á aðgang íslenskra fyrirtækja að erlendu lánsfé...Nefndin telur í ljósi núverandi efnahagaðstæðna að fyrrnefndi kosturinn geti raskað möguleikum íslenskra fyrirtækja til fjármögnunar og leggur því til að 1. gr. falli brott ásamt tengdum greinum.

 Stuttu síðar eða í júní 2009, fljótlega eftir kosningar, lagði þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, fram frumvarp með sömu tillögu um nýjan afdráttarskatt á vexti. Ekki fæst séð að skoðað hafi verið betur hver áhrif nýja skattsins gætu verið á aðgang íslenskra fyrirtækja að erlendu lánsfé líkt og boðað var. Án þess að neinar nýjar upplýsingar hefðu komið fram lagði efnahags- og skattanefnd nú til að ákvæðið um þennan nýja skatt yrði lögfest með litlum sem engum breytingum og taldi nefndin mikilvægt að tillaga fjármálaráðherra nái fram að ganga. Áhyggjur nefndarinnar af aðgangi íslenskra fyrirtækja að lánsfjármagni virtust hafa gufað upp án skýringa.

Í mars 2011 lagði þingkonan Ragnheiður Elín Árnadóttir fram fyrirspurn fyrir fjármálaráðherra um nýja skattinn sem hafði verið lögfestur um sumarið 2009. Fyrirspurnin laut m.a. að því hvort ráðuneytinu hefðu borist kvartanir, erindi eða annars konar athugasemdir frá íslenskum fyrirtækjum vegna vandkvæða við fjármögnun, eða erfiðleika við greiðslu vaxta af núverandi lánum, vegna afdráttarskattsins. Svarið við síðari spurningunni var að ráðuneytinu hefðu borist einhverjar athugasemdir eins og oft vill verða við nýja skattlagningu. Þá kom fram að þessar athugasemdir hefðu einmitt stafað frá íslenskum fyrir­tækjum sem kvörtuðu yfir að bera skattinn sjálf auk þess sem í framkvæmdin væri erfið þegar ekki lægi fyrir hvert skattalegt heimilisfesti eiganda vaxta væri.

 Stuttu eftir að fyrirspurninni var svarað, eða í maí 2011, lagði fjármálaráðherra fram enn eitt frumvarpið þar sem lögð var til breyting á hinum nýja skatti. Breytingin fól í sér að ekki yrði lagður á afdráttarskattur á vexti milli ótengdra aðila en með því væri að miklu leyti verið að draga úr ókostum skattlagningarinnar. Í athugasemdum með breytingunni sagði m.a. að dæmi væru um að lántakendur sjálfir hefðu sjálfir þurft að bera afdráttarskattinn og að óbreyttu væri ákveðin hætta á að ákvæðið þrengdi lánamöguleika íslenskra fyrirtækja á erlendum lánamörkuðum þar sem svigrúm væri þegar mjög þröngt.

Á þessum tímapunkti virðist fjármálaráðherra loks hafa viðurkennt að hann hefði átt að hlusta á hagsmunaaðila og sérfræðinga í upphafi en þá voru liðin tvö ár frá upphafi skattlagningarinnar – með tilheyrandi tjóni fyrir innlend fyrirtæki á tímum þegar þau hefðu síst þurft á því að halda. Í þessar lotu ákvað efnahags- og skattanefnd hins vegar að koma í veg fyrir tilraun fjármálaráðherra að draga úr skaðlegum áhrifum eigin gjörða. Þann 3. júní samdi nefndin álit með þeim athugasemdum að skilyrði undanþágunnar (um ótengda aðila) væru ekki nægjanlega skýr og gætu valdið vandkvæðum í skattframkvæmd. Lagði nefndin því til að málið yrði tekið upp á haustþingi.

Málið var tekið upp á haustþingi með þeim hætti að vikið var frá fyrri hugmynd um undanþágu fyrir ótengda aðila og í stað þess var skattþrepið lækkað úr 18% í 10% en einu áhrifin sem það hefur er að íslensk fyrirtæki greiða þá 10% álag á vexti í staðinn fyrir 18% en að öðru leyti eru nákvæmlega sömu gallar til staðar. Boðuð hefur verið endurskoðun fyrir árið 2013. Lausnin er ekki flókin en hún var lögð til af sérfræðingum í upphafi. Nú þegar bæði fjármála­ráðherra og efnahags- og skattanefnd hafa viðurkennt skaðleg áhrif afdráttarskattsins, sem þessir aðilar bera alla ábyrgð á, þá er áframhaldandi töf á leiðréttingu ekki afsakanleg með margra mánaða skoðun á málinu. Í því sambandi má benda á að það tók ekki nema nokkrar vikur að lögfesta skattinn þrátt fyrir umfangsmiklar viðvaranir. Ef ná á yfirlýstu markmiði skattlagningarinnar, þ.e. að koma í veg fyrir skattaundanskot þar sem hluti af hagnaði þeirrar atvinnustarfsemi sem lán er nýtt til rennur til ríkja sem leggja á engan eða mjög lágan tekjuskatt, er auðvelt að fylgja fordæmi Dana og leggja sérstaklega á afdráttarskatt á vexti sem renna til slíkra ríkja. Með því næst fram markmið hinnar upphaflegu skattlagningar og komið er í veg fyrir hin stórskaðlegu áhrif núverandi löggjafar.

Því miður er þetta langt í frá eina dæmið um sambærilega hringavitleysu í skattamálum á síðustu þremur árum og er afleiðingin sú atvinnulífið og erlendir fjárfestar bera lítið sem ekkert traust til þess að skattaumhverfið hér á landi sé stöðugt og fyrirsjáanlegt.