Faglegt efni

Stefán Ólafsson og skattaumræðan

14.8.2012

Eru íslensk fyrirtæki sérstaklega skattpínd í samanburði við aðrar þjóðir? Villandi er að líta eingöngu á skatthlutföll þegar ræða á hversu há eða lág skattlagning er. Heildstæð mynd af skattlagningu íslenskra fyrirtækja í samanburði við aðrar þjóðir fæst við að huga að mörgum þáttum og er ekki rauntækt að bera saman skattbyrði hér og í stórum ríkjum heims, eins og um sambærileg ríki sé að ræða.

Á sl. fimmtudag birti Stefán Ólafsson prófessor grein á vefsvæðinu eyjunni.is undir heitinu „Skattpíning fyrirtækja á Íslandi?“. Lesa má af greininni að um sé að ræða andsvar við grein Svönu Helenu Björnsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins sem birti grein í Fréttablaðinu deginum áður undir heitinu „Evrópumet í skattahækkunum“. Grein Svövu byggir á upplýsingum fengnum úr gögnum KPMG þess efnis að skattar á einstaklinga og fyrirtæki hafi hækkað um þriðjung frá árinu 2008. Séu tölur KPMG réttar er sannarlega um að ræða mikla hækkun á skömmum tíma sem getur í sjálfu sér verið gagnrýnivert með vísan til fyrirsjáanleika í skattumhverfinu.

Í svargrein sinni dregur Stefán í efa að íslensk fyrirtæki séu sérstaklega skattpínd í samanburði við aðrar þjóðir og nefnir sérstaklega tvær staðreyndir til stuðnings þeim málflutningi sínum. Í fyrsta lagi tilgreinir hann að hér sé skatthlutfall á hagnað fyrirtækja 20%, sem er skv. honum hið sjötta lægsta innan OECD. Í öðru lagi nefnir hann hverju tekjuskattur fyrirtækja skilar í ríkissjóð, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, í OECD-ríkjunum og tilgreinir að þar hafi Ísland verið í fjórða neðsta sæti árið 2010. Í málflutningi Stefáns kristallast hve villandi það getur verið að líta eingöngu á skatthlutföll þegar ræða á hversu há eða lág skattlagning er í einstaka ríkjum.

 Bæði þessi atriði sem Stefán tilgreinir skipta vitaskuld máli þegar litið er til skattlagningar fyrirtækja en að mati undirritaðra gefa þau þó engan veginn heildstæða mynd af skattlagningu íslenskra fyrirtækja í samanburði við aðrar þjóðir. Fyrir því eru einkum fjórar ástæður:

  1. Tekjuskattur fyrirtækja er einungis eitt form þeirrar skattlagningar sem lögð er á fyrirtæki hér á landi. Tryggingagjald, mótframlag í lífeyrissjóði, veiðileyfagjald, kolefnisskattur, fjársýsluskattur, gistináttagjald og margs konar önnur skattlagning fer fram, bæði almennt og sértækt á einstaka atvinnugreinar. Sérstaklega skal vikið að tryggingagjaldi og mótframlagi í lífeyrissjóð en þessi gjöld eru greidd óháð hvort fyriræki er rekið með hagnaði eða tapi. Í mörgum viðmiðunarríkjanna sem Stefán nefnir eru þessi gjöld ýmist ekki innheimt eða greidd af launþegum.
  2.  Skattlagning hluthafa í viðmiðunarríkjunum getur verið með ólíkum hætti. Þannig er heildarskattlagning hagnaðar sem myndast í rekstri fyrirtækis og er greiddur út í arð til hluthafa hér á landi á bilinu 20-50%. Arður getur í öðrum viðmiðunarríkjum t.d. nýst til frádráttar hjá greiðanda og/eða verið aðeins skattlagður umfram tilteknar fjárhæðir. Hér á landi eru arðgreiðslur í sumum tilvikum skattlagðar sem laun án frádráttar hjá greiðandanum. Slíkar reglur breyta verulega raunskattlagningu á hagnað fyrirtækja frá sjónarhóli hluthafa.
  3.  Í sumum ríkjanna er stigvaxandi skattlagning á fyrirtæki auk þess sem sumar tekjur telja ekki inn í skattstofn eða aðeins hluti af tekjum telst til skattstofns (t.d. vegna einkaleyfa). Ef Holland er tekið, sem dæmi sem nefnt var á listanum sem Stefán birtir, þá gildir 25% skattþrep á hagnað umfram 200.000 evrur. Lægri hagnaður er skattlagður með 20% skattþrepi.
  4.  Vegna sérstakra aðstæðna gefur greiddur tekjuskattur íslenskra fyrirtækja á árinu 2010 mjög skakka mynd af áhrifum íslenska skattkerfisins á skattlagningu fyrirtækja. Ekki er nóg með að á þessum tíma hafi verið gríðarlegur samdráttur í nánast öllum atvinnugreinum heldur varð hér einnig gengishrun með tilheyrandi áhrifum á skattalegt tap íslenskra fyrirtækja. Eins og flestum er kunnugt kemur eldra uppsafnað tap til frádráttar hagnaði hvers árs sem tekjuskattur reiknast svo af. Ekki þarf að fjölyrða um uppsafnað skattalegt tap íslenskra fyrirtækja á árinu 2010 (fyrir leiðréttingar vegna gengislána) og hlutfall tekjuskatts af vergri landsframleiðslu því vitanlega lágt.

Það sem liggur ljóst fyrir er að til þess að skoða samanburð á skattlagningu milli ríkja þarf að huga að mörgum öðrum þáttum eins og nefnt hefur verið hér að framan.

Á það má benda að gagnrýni undirritaðra á skattabreytingar sl. þriggja ára hafa ekki snúið að hækkun almennra skatthlutfalla heldur fyrst og fremst að ýmsum tæknilegum breytingum sem hafa haft langtum neikvæðari áhrif og þá sérstaklega á hvata til fjárfestinga. Auk þess hefur verið á það bent að samanburður á skattbyrði hér á landi annars vegar og í stórum ríkjum heimsins, eins og Þýskalandi t.d., eins og um sambærileg ríki sé að ræða, er í raun ekki tækur enda í öðru tilvikinu um að ræða markað með milljónum íbúa, sem fyrirtæki víðs vegar um heiminn sækja í til þess að selja vörur og þjónustu. Skattlagning hagnaðar fyrirtækja á slíkum markaði tekur auðvitað mið af þeirri staðreynd. Að sama skapi þarf skattlagning fyrirtækja á Íslandi að taka mið af því að laða að landinu fyrirtæki sem m.a. flytja út vörur og þjónustu til hinna stærri markaða.