Faglegt efni

Hinn óstöðugi löggjafi

22.3.2013

Setning laga sem takmarka útgreiðslur erlends gjaldeyris sérstaklega á óvart og var raunar enn ótrúlegra að heyra flutningsmenn frumvarpsins tala um að með henni væri verið að koma í veg fyrir sniðgöngu gjaldeyrishaftanna, væntanlega til að afla fylgis á Alþingi og meðal almennings.

Íslenskum gjaldeyrislögum var breytt með hraði þann 12. mars sl. Nýju lögin takmarka m.a. heimildir slitastjórna til útgreiðslu erlends gjaldeyris úr búi föllnu bankanna auk þess sem greiðslur samningsbundinna afborgana eru ekki lengur undanþegnar gjaldeyris­höftunum. Gera verður verulegar athugasemdir við þessa fáheyrðu framkvæmd við lagasetningu, þá sérstaklega þann hluta sem lítur að breytingum á heimild til greiðslu á samningsbundnum afborgunum.

Það liggur fyrir að lagasetningin var keyrð í gegn gagngert til að bregðast við útflæði gjaldeyris sem áætlað var þremur dögum síðar vegna greiðsludags á afborgunum og vöxtum í flokki íbúðarbréfa HFF14. Sú aðferðafræði að setja lög, einungis þremur dögum fyrir greiðsludag, sem beinlínis hamla útgreiðslunum, verður að teljast með miklu ólíkindum.

Það leikur enginn vafi á því að stjórnvöld vissu að erlendir fjárfestar væru að kaupa þessi umdeildu verðbréf í þeim tilgangi að hagnast á þeim og til að losa um stöður í íslenskri krónu. Raunar hefur þessi leið ekki verið meira leyndarmál en svo að greiningardeildir íslensku bankanna hafa gert grein fyrir þessum möguleika á heimasíðum sínum og útsendum fréttabréfum. Þá hefur Seðlabanki Íslands staðfest að þessi fjárfestingaleið væri heimil. Því kemur lagasetningin sérstaklega á óvart og var raunar enn ótrúlegra að heyra flutningsmenn frumvarpsins tala um að með henni væri verið að koma í veg fyrir sniðgöngu gjaldeyrishaftanna, væntanlega til að afla fylgis á Alþingi og meðal almennings. Fyrir liggur að undanþágan var til staðar í lögum og framkvæmd hennar staðfest af Seðlabankanum. Hugtakið sniðganga getur ekki átt við þegar skýrar undanþágur í lögum eru nýttar og eru slíkar ásakanir nokkuð ósmekklegar sérstaklega þegar þær koma frá þingmönnum sem tóku þátt í að lögfesta hana. Ef eðlileg sjónarmið um meðalhóf hefðu verið virt hefði undanþágan verið takmörkuð eða afnumin til framtíðar vegna kaupa á nýjum bréfum en þess í stað var ráðist gegn þeim aðilum sem höfðu þegar í góðri trú lagt út fjármuni til að fjárfesta í umræddum skuldabréfum.

Því miður er þessi lagasetning ekkert einsdæmi.  Fjárfestar eru enda farnir að gera ráð fyrir óstöðugu og ófyrirsjáanlegu lagaumhverfi hér á landi, sem og fjandsamlegu viðhorfi stjórnvalda. Nefna má sem dæmi um óstöðugleikan og ófyrirsjáanleikann í íslensku atvinnulífi að samantekt Viðskiptaráðs sýnir gerðar hafa verið yfir 100 skattabreytingar á síðustu þremur árum hér á landi. Undirritaðir hafa bent á að rökstuðningur og forsendur fyrir ýmsum grundvallabreytingum á íslenskum skattalögum hafa verið mjög hæpnar og að engu líkara sé en að um skipulagða atlögu að fjárfestingum í atvinnulífinu sé að ræða.

Sé horft til fyrrgreindra lagabreytinga er staðan einfaldlega sú að erlendir fjárfestar höfðu fjárfest hér í góðri trú, án nokkurs ásetnings um sniðgöngu. Eftirlitsaðilar gáfu skýr fyrirheit um framkvæmd laga sem tryggja að hægt sé að fá fjárfestinguna ásamt vöxtum greidda tilbaka. Þremur dögum áður en til greiðslu kom eru sett sérstök lög til að koma í veg fyrir greiðsluna og með fylgir að stjórnmálamenn lýsa hinum erlendu fjárfestum sem sérstökum illmennum, aðilum sem sniðgangi lög og rétt. Hvaða ríki haga sér með þessum hætti?

Erlendir aðilar sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi hljóta, eftir þessa lagasetninguna, að spyrja sig enn og aftur hvort hægt sé að treysta á stöðugleika í íslensku lagaumhverfi. Því er til að svara að sá flumbrugangur í lagasetningu sem fylgdi hruni íslenska fjármálageirans getur því miður ekki talist yfirstaðinn.

Sérstaklega má nefna í þessum sambandi aðra undanþágu í gjaldeyrislögum sem lítur að skilgreindum  nýfjárfestingum í erlendri mynt. Undanþágan á að tryggja það að aðilar sem fjárfesta á Íslandi í erlendum gjaldeyri geti tekið gjaldeyrinn aftur út ásamt ávöxtun. Í ljósi nýjasta útspils yfirvalda getur nokkur með góðu móti sagt að hægt sé að treysta að svo verði?