Faglegt efni

Birting úrskurða yfirskattanefndar

5.12.2013

Eftir því sem álitamálum fjölgar hjá yfirskattanefnd snarfækkar birtum úrskurðum nefndarinnar. Þannig vekur það sérstaka athygli að nefndin birti aðeins tvo úrskurði árið 2011 og fimm árið 2012, þrátt fyrir að á síðustu 10 árum hafi ekki áður sést viðlíka fjöldi mála fyrir nefndinni. Þó hlýtur teljast líklegt að á einmitt þessum árum hafi verið að falla úrskurðir sem hafi haft hvað mest erindi til almennings, vegna fordæmisgildis þeirra í kjölfar lagabreytinga.

Þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað á tekjuskattslögum frá miðju ári 2009 fram til dagsins í dag hafa vart farið fram hjá neinum. Breytingar lutu ekki aðeins að tekjuskattshlutföllum, heldur var  einnig um að ræða fjölda tæknilegra breytinga, sem margar hverjar gátu verið þó nokkuð flóknar í framkvæmd. Því til viðbótar voru lögfest allnokkur ákvæði sem tóku til takmarkaðrar tekjufærslu einstaklinga og lögaðila vegna skuldaeftirgjafar í kjölfar efnahagshrunsins. Þá var tekjuskatts- og staðgreiðsluskattkerfi einstaklinga umbylt með þrepaskiptum tekjuskatti og var ennfremur kynntur til sögunnar nýr tímabundinn auðlegðarskattur og svo mætti raunar lengi áfram telja.

Eðli málsins samkvæmt kemur upp fjöldi álitamála í tengslum við innleiðingu og beitingu nýrra lagaákvæða og verður alltaf einhver óvissa við framtalsgerð og álagningu fyrstu árin eftir slíkar breytingar. Í slíku árferði hvílir mikil ábyrgð á yfirskattanefnd, sem hefur það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna þeirra einstaklinga og lögaðila sem skjóta málum sínum til nefndarinnar. Úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður um skattfjárhæð, ágreiningsefni um skattskyldu og skattstofna en hann má bera undir dómstóla, vilji aðilar ekki sæta honum.

Það er mikil réttarvernd fólgin í því að geta borið jafn mikilvægt álitaefni og álagningu skatta fyrir óháða nefnd. Á þetta ekki hvað síst við í kjölfar fjölda lagabreytinga, líkt og gengið hafa yfir síðustu misserin.

Yfirskattanefnd ber að birta á vefsíðu sinni helstu úrskurði sína árlega, enda hafa úrskurðirnir fordæmisgildi að því er varðar afgreiðslu annarra sambærilegra mála. Skattborgarar og fagaðilar geta þannig fylgst með störfum nefndarinnar og tekið afstöðu til þess hvernig þeir haga sínum skattskilum eða ráðgjöf á sviði skattamála.

Í töflunni hér að neðan má sjá hvernig þróun málafjölda hefur verið hjá nefndinni á síðustu 10 árum.

Ár Alls afgreidd mál Birtir úrskurðir Hlutfall birtra úrskurða
2012 628 5 0,80%
2011 440 2 0,45%
2010 425 20 4,71%
2009 350 19 5,43%
2008 312 24 7,69%
2007 361 45 12,47%
2006 435 63 14,48%
2005 431 53 12,30%
2004 463 54 11,66%
2003 411 75 18,25%
2002 513 46 8,97%

 Það sem vekur eflaust fyrst eftirtekt í þessu yfirliti er að málafjöldi dregst eitthvað saman á árunum 2007-2009, en hækkar svo snart á árinu 2010. Að öllum líkindum fylgir málafjöldi að nokkru umsvifum í atvinnulífinu og skýrir það væntanlega þann samdrátt í málafjölda. Þá má leiða að því líkum að aukning mála á árinu 2010 skýrist ekki hvað síst af áðurnefndum lagabreytingum.

Þó kemur það nokkuð á óvart hve lítil aukning í málum nefndarinnar hefur verið, miðað við hve umfangsmiklar áðurnefndar lagabreytingar voru og má því ætla að á komandi árum muni málum sem lúta að þessum breyttu lögum fjölga. Því til stuðnings má benda á að málafjöldi eykst umtalsvert milli áranna 2011 og 2012, eða um u.þ.b. 43%.

Það sem vert er að staldra við í þessu yfirliti er hins vegar að eftir því sem álitamálum fjölgar hjá nefndinni síðustu árin snarfækkar birtum úrskurðum nefndarinnar. Þannig vekur það sérstaka athygli að nefndin birti aðeins tvo úrskurði árið 2011 og fimm árið 2012, þrátt fyrir að á síðustu 10 árum hafi ekki áður sést viðlíka fjöldi mála fyrir nefndinni. Þó hlýtur teljast líklegt að á einmitt þessum árum hafi verið að falla úrskurðir sem hafi haft hvað mest erindi til almennings, vegna fordæmisgildis þeirra í kjölfar lagabreytinga.

Eins og áður sagði ber nefndinni að birta helstu úrskurði sína árlega, lögum samkvæmt og verður að álykta að orðalag lagaákvæðisins skyldi nefndina til að birta alla úrskurði sína, nema augljóst sé að þeir hafi enga þýðingu. Því skýtur það skökku við að nefndin hafi á fimm ára tímabili, árin 2008-2012, aðeins birt 70 úrskurði af þeim 2.155 málum sem nefndin afgreiddi.

Það sem er þó öllu alvarlegra, er að það hefur hent að önnur yfirvöld hafa grundvallað niðurstöðu sína í deilumáli við borgarana með vísan til úrskurðar yfirskattanefndar, sem ekki var birtur á vef nefndarinnar. Áttu því yfirvöld aðgang að óbirtum úrskurðum, sem borgararnir áttu ekki sama kost á að kynna sér.

Álagningarskrár með persónugreinanlegum upplýsingum liggja fyrir allra augum ár hvert, þar sem fólki gefst kostur á að hnýsast um tekjur náungans. Ríkisskattstjóri vinnur auk þess gögn um tekjur og eignir skattgreiðenda fyrir fjölmiðla, svo þeir geti upplýst samfélagið um hagi samborgaranna. Vaknar því sú spurning hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að allir úrskurðir yfirskattanefndar séu birtir á vef nefndarinnar, jafnharðan og þeir falla - eftir að hafa verið hreinsaðir af öllum persónugreinanlegum upplýsingum, að sjálfsögðu!