Faglegt efni
Hugleiðingar um Toyota-málið - annar hluti
Á síðasta ári féll dómur Hæstaréttar í máli nr. 555/2012, sem oft hefur verið nefnt Toyota-málið. Grein þessi er önnur grein af þremur sem inniheldur hugleiðingar greinarskrifara um dóminn og áhrif hans.
Fyrsta greinin fjallaði almennt um dómsniðurstöðuna og þau efnislegu skilyrði sem Hæstiréttur setti fyrir niðurstöðu sinni. Í þessari grein verður stuttlega fjallað um áhrif dómsins í víðari skilningi.
Í Toyota-málinu var um að ræða kaup nýstofnaðs félags á félagi í rekstri. Kaupin voru fjármögnuð með lánsfé og voru félögin tvö sameinuð í kjölfar kaupanna, með þeim hætti að móðurfélaginu var slitið og dótturfélagið tók yfir réttindi þess og skyldur. Þess háttar samrunar hafa verið kallaðir öfugir samrunar, að öndverðu við samruna sem fela í sér yfirtöku móðurfélags á rekstri dótturfélags.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að hinu sameinaða félagi væri ekki heimilt að draga vaxtagjöld vegna ofangreindrar fjármögnunar frá tekjustofni. Byggði niðurstaðan aðallega á eftirtöldum forsendum:
- Eftir samruna höfðu skuldir móðurfélagsins engan rekstrarlegan tilgang í hinu sameinaða félagi.
- Samruninn miðaði ekki heldur að því að ná fram samlegðaráhrifum.
- Þá taldi rétturinn að samruni félaganna hefði gagngert miðað að því að koma skuldum yfir á yfirtökufélagið.
Réttaróvissa í kjölfar dómsins
Meðan að Toyota-málið var til lykta leitt í stjórnsýslunni mátti greina nokkra neikvæða umræðu um öfuga samruna. Eins og gefur að skilja vænkaðist ekki orðspor þeirra í kjölfar dómsins í málinu. En öfugir samrunar verða ekki allir undir sömu sökina seldir. Tæknileg útfærsla við framkvæmd þeirra ein og sér ætti ekki að leiða til þess að vaxtagjöld falli niður. Fleira þarf að koma til.
Í þessu samhengi er rétt að geta þess að í Toyota-málinu var um að ræða samruna rekstarfélags við nýstofnað félag, sem var að því er virðist eignalaust fyrir utan eignarhlutinn í rekstrarfélaginu. Þá hafði félagið ekki staðið að neinum fjárfestingum fyrir kaup rekstrarfélagsins. Það dómafordæmi sem fyrir liggur tekur því til atvika þar sem þröskuldar voru mjög lágir, ef svo mætti að orði komast, og því óþarft að draga of víðtækar ályktanir af dómsniðurstöðunni.
Hæglega má sjá fyrir sér öfuga samruna, sem hvorki er hægt að fullyrða að séu gagngert framkvæmdir til að knýja fram samruna skulda og rekstrar, né að af þeim megi ekki vænta samlegðaráhrifa. Það sem má segja að kunni að valda vandkvæðum er að greina hvaða kröfur sé rétt að gera til tengsla vaxtagjalda við hinn sameinaða rekstur. Dómniðurstaðan felur það nefnilega ekki beint í sér að vaxtagjöld, sem til eru komin vegna kaupa á rekstrarfélagi, séu almennt ekki frádráttarbær í skilningi tekjuskattslaga, í kjölfar samruna við sama rekstarfélag. Nákvæmt svar við þessu álitaefni liggur því ekki glögglega fyrir. Á komandi misserum munu væntanlega fleiri mál rata fyrir dómstóla, sem varpa frekara ljósi á réttarstöðuna í þessum efnum.
Samsköttun - ólík skattaleg meðferð
Eitt veigamikið atriði í málsvörn skattaðilans í Toyota-máinu fékk ekki efninslega umfjöllun í málinu, en það er sú ólíka meðferð sem er á skattskilum í kjölfar samruna og skattskilum í samsköttun.
Um samsköttun félaga er fjallað í 55. gr. tekjuskattslaga. Eru skilyrði samsköttunar að móðurfélag eigi hið minnsta 90% hlutafjár í dótturfélögum sem óskað er samsköttunar á. Þá skulu samsköttuð félög hafa sama reikningsár og eignarhald hafi varað allt reikningsárið, nema þegar um nýstofnuð dótturfélög er að ræða eða slit á dótturfélagi.
Beina skal umsókn um samsköttun til ríkisskattstjóra og er hún háð samþykki embættisins. Ef fallist er á samsköttun er skattskilum hagað þannig að tekjuskattur af sameiginlegum tekjustofni samskattaðra félaga er lagður á móðurfélagið í samsköttuninni. Tap sem verður á rekstri eins eða fleiri samskattaðra félaga má draga frá tekjum hinna áður en tekjuskattur er reiknaður.
Meðal þeirra raka sem haldið var á lofti í Toyota-málinu, gegn túlkun skattyfirvalda var að félögin hafi uppfyllt öll skilyrði tekjuskattslaga til samsköttunar. Var á því byggt að ef sótt hefði verið um samsköttun, í stað að fara í samrunaferli, hefði jákvæður tekjuskattsstofn rekstrarfélagsins jafnast á móti neikvæðum tekjustofni móðurfélagsins, þegar endanlegur skattur hefði verið álagður. Endanleg skattaleg niðurstaða hefði því orðið nákvæmlega sú sama, eins og ef frádráttur vaxtagjalda hefði verið heimill í kjölfar samruna félaganna.
Í niðurstöðukafla héraðsdóms í málinu segir berum orðum, að ef til samrunans hefði ekki komið, hefðu vaxtagjöldin verið frádráttarbær hjá móðurfélaginu. M.ö.o virðist héraðsdómur ekki telja að það hafi skort forsendur fyrir frádrættinum fyrir samrunann, enda væru vextirnir greiddir af skuld sem stofnast hefði vegna eignaaukningar félagsins.
En héraðsdómurinn vék ekki efnislega að þessari málsástæðu, með vísan til þess að sú réttarstaða var ekki uppi í því máli sem rekið var fyrir dómnum. Þá var ekkert frekar vikið að þessu í dómi Hæstaréttar. Miðað við þessi ummæli héraðsdómsins má leiða líkum að því að dómurinn hafi talið samsköttun tæka, hefði ekki komið til samrunans.
Þessi ólíka skattalega meðferð kristallar veikleika tekjuskattslaganna að þessu leyti. Fram að þessu hefur ekki tíðkast að skattyfirvöld leggi sérstakt mat á innbyrðis tengsl tekna og gjalda innan samskattaðrar samstæðu, enda hefur ekki almennt verið miðað við að gerð séu frekari skilyrði til samsköttunar félaga en fram koma í áðurnefndri 55. gr. laganna. Því eru allar líkur á því, að í skattaðilinn í Toyota-málinu, sem og aðrir skattaðilar, sem sæta endurálagningu vegna öfugra samruna, hefðu getað komið sér hjá henni ef félögin hefðu verið samsköttuð í stað þess að renna þeim saman. Slík mismunandi meðferð verður vart studd með vísan til haldgóðra raka.
Áður en til samsköttunar kemur, veitir ríkisskattstjóri heimild sína fyrir henni, því verður að ætla að það væri á verulega á brattann að sækja fyrir skattyfirvöld, ef þau ætluðu sér að taka samsköttun félaga til endurskoðunar, með tilliti til dómsforsendna Hæstaréttar í Toyota-málinu. Það er þó ekki loku fyrir það skotið að slíkt máli kunni upp að koma, enda hefur skatteftirlit hér á landi þótt nokkuð skapandi á köflum.
Hver verða næstu skref?
Það hlýtur þó hver að sjá, að í stað þess að framlengja það ástand óvissu og ójafnræðis sem er í þessum efnum, er skynsamlegra að draga línu í sandinn og marka með lögum réttarstöðuna til framtíðar. Setja þarf reglu sem kveður skýrt á um það hvort vaxtagjöld, séu almennt frádráttarbær í kjölfar samruna, með eða án takmarkanna. Að öðrum kosti þarf að kveða skýrt á um að við því liggi blátt bann.
Það er óþarft að finna upp hjólið á þessu réttarsviði, fjöldi nágrannaríkja okkar hafa þegar innleitt reglur sem taka á þessum álitaefnum. Mörg ríki hafa sett sér reglur um sk. magra eiginfjármögnun (e. thin capitalisation), sem takmarkar vaxtafrádrátt miðað við hlutfall skulda af eigin fé.
Menn kunna að hafa sínar skoðanir á þess háttar reglum, enda þær þótt verið flóknar í framkvæmd og fela í sér viðbótarflækjustig, sem almennt er gott að vera án. Þau sjónarmið eru góðra gjalda verð, en spurning er hvort þetta flækjustig væri þolanlegt í þágu gagnsæis og jafnræði skattaðila.
Skýrar og fyrirsjáanlegar leikreglur hljóta að teljast eftirsóknarverðari en ríkjandi óvissa. Þannig mætti tryggja að tæknilegar útfærslur við framkvæmd samruna hefðu ekki úrslitaáhrif á skattalega niðurstöðu í kjölfar samrunans eða að aðilar gætu notið skattalegs hagræðis með samsköttun, sem stæði þeim ekki til boða sem hefðu í hyggju að hagræða í rekstri og endurskipuleggja félagauppbyggingu með samrunum innan samstæðu.
Það er þó mikilvægt að vanda til verka við slíka lagasetningu og gæta að því að slíkar reglur verði ekki steinn í götu íslenskra fyrirtækja eða geri Ísland að síður aðlaðandi stað fyrir uppbyggingu fjölþjóðlegra fyrirtækja. Vel smíðaðar reglur geta stutt við öflugt og sterkt atvinnulíf, en því miður eru hnökrar í skattframkvæmd hér á landi, sem hæglega mættu missa sín í þágu heilbrigðara fyrirtækjaumhverfis.