Faglegt efni

Höft innan hafta

24.3.2014

Eins og flestum Íslendingum er kunnugt þá ríkja gjaldeyrishöft á Íslandi sem var komið á í kjölfar hruns fjármálakerfisins haustið 2008. Í hugum margra sem stunda viðskipti á Íslandi þá eru höftin fyrst og fremst sett til að koma í veg fyrir útflæði erlends gjaldeyris í þeim tilgangi að verja gengi krónunnar gegn falli.

Núgildandi lög og reglur í gjaldeyrismálum lúta þó ekki einungis að þessum markmiðum, heldur er erlendum aðilum, eins og þeir eru skilgreindir í lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992, settar verulegar hömlur um meðferð á eignum sínum innan hafta á Íslandi.

Samkvæmt reglum Seðlabankans nr. 300, sem settar voru í apríl 2013, er erlendum aðilum veruleg takmörk sett á því hvernig þeim er heimilt að ráðstafa innlendum eignum sínum. Skiptir þar engu hvenær þessar eignir komust í eigu erlenda aðilans eða hvort hann var yfirleitt talinn erlendur aðili þegar hann eignaðist viðkomandi eign. Erlendum aðilum, sem hafa fjárfest hér á landi og eignast hér eignir með einum eða öðrum hætti, hvort sem það var fyrir eða eftir höft, er samkvæmt gildandi reglum ekki heimilt að eiga viðskipti með þessar eignir við innlenda aðila. Þessum aðilum er því óheimilt að selja innlendar eignir, nema að þeir hafi fengið sérstaka undanþágu frá Seðlabanka Íslands, en í því samhengi má nefna að lágmarks afgreiðslufrestur slíkra undanþága er átta vikur, þó stundum geti hann verið styttri.

Ef við setjum þetta í samhengi og ímyndum okkur erlendan aðila, sem á hlutabréf í félagi sem er skráð í kauphöll hér á landi. Skyndilega sendir þetta félag frá sér afkomuviðvörun og gengi bréfanna taka að lækka. Viðkomandi aðili ætti yfir höfði sér verulega tjónsáhættu, þar sem hann á ekki kost að selja hlutabréf sín í viðkomandi félagi í skyndi, þar sem til þess þarf sérstaka undanþágu. Gildir hér einu þó svo að viðkomandi aðili ætli að viðhalda fjárfestingunni hér á landi með því að endurfjárfesta strax í öðrum hlutabréfum í kauphöllinni.

Það er einnig umhugsunarvert að líta til þeirra erlendu aðila sem hafa fjárfest hér á landi í gegnum hina svokölluðu fjárfestingaleið. Eitt af grunnskilyrðum þess að fjárfestir fái heimild til að taka þátt í fjárfestingaleiðinni er að fjárfestirinn gangist undir fimm ára binditíma á fjárfestingu sinni. Það þýðir að fjárfestirinn má ekki selja eignina í fimm ár frá dagsetningu þátttöku hans í fjárfestingaleiðinni. Ef sömu reglur verða enn í gildi árið 2015, þegar fyrstu þátttakendur í fjárfestingaleiðarinnar verða leystir undir kvöð sinni, eru þeir aðilar í grunninn til í nákvæmlega sömu stöðu og þeir voru þegar fimm ára binditíminn var í gildi. Margir sem þekkja til fjárfestingaleiðarinnar hafa löngum haldið að eftir að fimm ára binditímanum er lokið hafi þátttakendur fyrirvaralausan útgöngumiða út úr höftum. En hvergi í lögum eða reglum er þá heimild að finna og eru þessi aðilar jafn fastir innan hafta og allir aðrir erlendir sem innlendir aðilar.

Ástæða er til að taka það fram að tilteknar eignir eru lausar við þær hömlur sem lýst er hér að framan en erlendir aðilar geta fjárfest óhindrað í tilteknum skráðum ríkisbréfum.

Gjaldeyrishöftin og ástæður setningu þeirra er vissulega umdeilanleg en þó má færa rök fyrir því að tilvist þeirra hafi varið krónuna fyrir falli frá 2008. Erlendir aðilar hafa fyrir vikið verið fastir á Íslandi með fjárfestingar sínar síðan fjármálakerfið hrundi.

Ætla verður að það þurfi að bjóða erlendum fjárfestum upp á betri starfsskilyrði hér á landi, ef það er á annað borð ætlun okkar að laða að erlenda fjárfestingu. Að læsa erlenda og innlenda aðila inni í gjaldeyrishöftum til verja land og þjóð fyrir áföllum er eitt en það má velta þeirri áleitnu spurningu upp, hvort ástæða sé til að læsa þessa aðila við tilteknar fjárfestingar innan haftanna. Eins er önnur og stærri spurning sem lýtur að því hvort þessi mismunun á innlendum og erlendum aðilum varðandi viðskipti með eignir sínar hér á landi rúmist innan þeirrar undanþágu sem íslenska ríkinu hefur verið veitt frá skuldbindingum okkar samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Þeirri spurning verður þó ekki svarað að þessu sinni.