Faglegt efni
Er nýsköpun að fara í vaskinn?
Virðisaukaskattur kann að vera dragbítur á íslenskri nýsköpun.
Í síðustu viku var að finna umfjöllum á síðum Morgunblaðsins um skyldu þeirra aðila sem veita rafræna þjónustu hér á landi að skrá sig á virðisaukaskattskrá og innheimta virðisaukaskatt, ef velta viðkomandi fer yfir kr. 1.000.000 á ári. Ber þessum aðilum að innheimta virðisaukaskatt af sölu til aðila sem ekki eru skráningarskyldir og geta því ekki talið virðisaukaskatt vegna þjónustunnar til innskatts.
Með nokkurri einföldun mætti orða þetta með þeim hætti að rafrænum þjónustuveitendum ber að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem þeir selja til neytenda hér á landi. Þar undir fellur ýmislegt, s.s. hvers konar hýsingarþjónusta, sala hugbúnaðar, rafrænnar tónlistar og myndefnis o.s.frv.
Ýmsir aðilar hafa boðið upp á slíka þjónustu hér á landi og náð nokkurri fótfestu. Sem dæmi má nefna að Spotify hefur boðið áskrift af tónlistarveitu sinni hér á landi og þá eru eru margir Íslendingarnir sem greiða fyrir að geymslupláss í skýinu.
Óformleg könnun mín hefur hins vegar leitt það í ljós að verulegur misbrestur er á því að erlendir aðilar uppfylli skyldur sínar til skrá sig á virðisaukaskattskrá hér á landi. Líklegasta skýring á því að þessir aðilar átti sig ekki á réttarstöðunni og séu ómeðvitaður um skráningarskyldu sína, fremur en að þeir séu að sniðganga lögboðna skatta.
Þessi misbrestur veldur því að erlendir aðilar njóta umtalsverðs samkeppnisforskots á innlenda aðila, þar sem þeirra þjónusta sætir virðisaukaskatti, lögum samkvæmt, en hinir erlendu þjónustuveitendur hafa í gegnum tíðina komist hjá honum.
Mikið af íslenskri nýsköpun á sér einmitt stað í þessum rafræna geira og er það mjög hvimleitt fyrir þá aðila að eiga ekki kost á að keppa á jafnræðisgrunni við erlenda aðila, sem oft eru stór alþjóðleg fyrirtæki sem njóta umtalsverðrar stærðarhagkvæmni.
Þetta er þó ekki eina hindrunin sem virðisaukaskattur setur þessum geira. Þannig er mál með vexti að í virðisaukaskattslögum er að finna lögfestar undantekningar frá hinu almenna 25,5% þrepi virðisaukaskatts. Þannig segir t.d. að sala bóka og geisladiska falli undir hið lægra 7% þrep.
Árum saman máttu þeir sem keyptu rafrænar útgáfur sömu miðla þó þola að greiða fullan virðisaukaskatt af viðskiptunum. Sama bókin sætti þannig ólíkri skattlagningu eftir því hvort hún var prentuð eða rafræn. Sem betur fer var þessi mismunun leiðrétt með lagabreytingu og falla nú báðir miðlarnir réttilega undir sama þrep virðisaukaskatts.
En nú kemur aftur upp sú staða að með hefðbundinni lögskýringu á undantekningarákvæði virðisaukaskattslaganna sæta ýmis viðskipti fullum 25,5% virðisaukaskatti, sökum þess að viðskiptin eigi sér stað rafrænt, meðan að sambærileg viðskipti, sem ekki eiga sér stað rafrænt, sæta 7% virðisaukaskatti.
Við túlkun undantekninga frá almennum ákvæðum laga um virðisaukaskatt hafa skattyfirvöld beitt þröngri lögskýringu. Falli viðskiptin ekki með óyggjandi hætti undir undanþáguna, er skattlagningu hagað í samræmi við almenna meginreglu laganna.
Hér skal sala tónlistar nefnd sem dæmi. Undantekningarákvæði laga um virðisaukaskatt kveða á um að sala á rafrænnar tónlistar falli undir hið lægra 7% þrep, eins og áður sagði. Felur það í sér að rafrænt eintak af tónlistinni sé afhent gegn greiðslu. Þegar þessi undantekning var lögfest, hafði athygli löggjafans verið vakin athygli á því að rétt væri að undantekningin tæki líka til miðlunar á rafrænni tónlist, en ekki bara sölu. Ekki þótti tími til að taka tillit til þeirra sjónarmiða þegar lögin voru samþykkt, þar sem setning laganna fór fram á síðasta degi þings. Þótti eðlilegt að taka það til frekari skoðunar á næstkomandi þingi og má því segja að málið sé enn hálfklárað.
Það er því mikilvægt að löggjafinn láti málið til sín taka og kveði með skýru móti á um það með lögum, með hvaða hætti undantekningum laganna skuli beitt í rafrænni miðlun. Eins verður löggjafinn og skattyfirvöld að haga lagasetningu og eftirfylgni laga þannig að þess sé gætt að allir sitji við sama borð. Að öðrum kosti er hætt við því að þessi íslenska nýsköpun fari í vaskinn, ef svo mætti að orði komast.