Faglegt efni

Leiðrétting gengistryggðra lána skattskyld?

12.12.2010

Undanfarið hefur mikið verið rætt um eftirgjöf skulda, jafnt fyrirtækja sem einstaklinga. Skattaleg meðferð slíkrar eftirgjafar hefur einnig borið á góma, þó minna hafi farið fyrir þeim þætti málsins. Samkvæmt meginreglunni telst slík eftirgjöf að fullu til skattskyldra tekna hjá þeim sem nýtur.

Þann 24. júní samþykkti Alþingi bráðabirgðalög um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda. Lögin taka til eftirgjafar skulda einstaklinga og rekstraraðila (þ.e. einstaklingum og fyrirtækjum í atvinnurekstri), sem kemur til vegna þess óvenjulega ástands sem skapaðist á innlendum lánamarkaði og ná til tekjuáranna 2009-2011. Hér verður stuttlega vikið að ákvæðum laganna sem miða að því að takmarka skattaleg áhrif skuldaeftirgjafar hjá rekstraraðilum.

Í stuttu máli gera lögin ráð fyrir að tekjufærsla vegna eftirgjafar sé fyrst færð á móti uppsöfnuðu rekstrartapi undanfarinna ára. Í kjölfarið er rekstraraðilanum heimilt að takmarka tekjufærslu með því að færa aðeins til tekna 50% af eftirgjöf allt að fjárhæð 50 m. kr. og 75% af eftirgjöf umfram 50 m. kr.

Þá er heimild til sérstakrar fyrningar eigna á móti eftirstandandi tekjufærslu vegna eftirgjafarinnar. Standi eitthvað eftir er heimilt að dreifa tekjufærslunni jafnt á næstu þrjú ár.

Afleiðingar niðurfelldrar gengistryggingar 

Í frumvarpinu er gerður greinarmunur á eftirgjöf skulda eða myntbreytingu lánasamninga, sem felur í sér höfuðstólslækkun. Því er slegið föstu að slík skilmálabreyting hafi ekki í för með sér skattskyldar tekjur, sé breytingin gerð á málefnalegum forsendum og kjörin í samræmi við það  sem er almennt í boði. Rekstraraðila ber þó að leiðrétta áður færðan fjármagnskostnað.

Hafa ber í huga að slík leiðrétting á fjármagnskostnaði getur haft umtalsverð áhrif á skattstofna rekstraraðila. Ákvæðið vekur upp tvær áleitnar spurningar. Í fyrsta lagi hvort slík leiðrétting fari fram á tekjuárinu sem niðurfelling á sér stað eða hvort framtöl undanfarinna ára skuli leiðrétt? Lögin svara þessu ekki með óyggjandi hætti en vegna breytinga á skatthlutfalli getur það haft misjöfn áhrif eftir því hvenær leiðrétting er framkvæmd.

Í öðru lagi teljast bæði gjaldfærðir vextir og gengistap af lánum til fjármagns-kostnaðar? Fjármagnskostnaður er ekki nánar skilgreindur í lögum um tekjuskatt en gengishagnaður telst til fjármagnstekna. Ætla verður að gengistap teljist því til fjármagns-kostnaðar, sé litið til tilgangs laganna og ummæla í greinargerð.

Því mun leiðrétting fjármagnskostnaðar sem inniheldur áður gjaldfært gengistap leiða til þess að niðurfelling gengistryggðra lána rekstraraðila telst nær öll til skattskyldra tekna og hefur þannig töluverð áhrif í skattskilum viðkomandi.

Verulegu máli skiptir hvernig útfærsla endurskipulagningar er háttað, þar sem skattaleg meðferð skuldaeftirgjafar og myntbreytingar er mjög ólík. Hvorugt verður framkvæmt án skattalegra afleiðinga, en þær geta verið mjög frábrugðnar eftir því hvernig tæknilegri útfærslu er háttað.

Dæmi um mismunandi skattaleg áhrif

Hér á eftir fer einfalt dæmi um mismunandi skattalega niðurstöðu hvort um niðurfellingu skulda eða skilmálabreytingu sé að ræða í skilningi bráðabirgðalaga um meðferð eftirgjafar skulda.

Gert er ráð fyrir 100 millj. láni sem tekið er í upphafi árs 2006. Staða skulda félagsins næmi í dag tæpum 130 millj. þrátt fyrir að greitt hafi verið af lánum félagsins fyrir rúmar 84 millj. á  lánstímanum. Miðað er við myntkörfuna 50% CHF og 50% JPY og 15 ára lán greitt með jöfnum afborgunum. Myndin hér að neðan sýnir þróun lánsins á árunum 2006 til 2010.

Skv. endurútreikningi lánsins á grundvelli dóms Hæstaréttar næmu eftirstöðvar lánsins 55,5 millj. Niðurfelling næmi því 74,5 millj. Myndin hér að neðan sýnir endurútreikninga lánsins fyrir árin 2006 til 2010.

Ef farið væri með niðurfellinguna sem skilmálabreytingu í skilningi laga um skattalega meðferð eftirgjafar skulda myndi leiðrétting á áður gjaldfærðum fjármagnskostnaði nema sömu fjárhæð og niðurfellingin eða 74,5 millj. Skuldara ber annað hvort að dreifa henni árin 2006 – 2010 líkt og sýnt er hér að neðan eða tekjufæra í heilu lagi á árinu 2010, en lögin kveða ekki á um hvorri aðferðinni skuli beitt.

Það hefði hins vegar umtalsverð skattaleg áhrif ef unnt væri að niðurfellingin yrði framkvæmd sem eftirgjöf skulda en ekki skilmálabreyting. Í því felst að láninu er haldið í upphaflegri mynt, en hluti höfuðstólsins er gefin eftir.


Ef félagið á ekkert yfirfæranlegt tap kæmi niðurfellingin að fullu til skattskyldra tekna sem leiðrétting á áður gjaldfærðum rekstrar-kostnaði. Ef um eftirgjöf skulda væri að ræða næmi skattskyldar tekjur hins vegar eingöngu 43,4 millj. eða 31,1 millj. lægra heldur en skv. hinni aðferðarfræðinni eins og sjá má á myndinni hér á eftir. Einnig gæti félagið nýtt sér skattfrestunarkosti á því sem eftir er, dreift tekjufærslunni á þrjú ár eða aukafyrnt fyrnanlegar eignir. Félagið gæti þannig sparað sér 5,6 millj. í skattgreiðslur og að auki notið hagræðis skattfrestunar.


Svipaða sögu er að segja ef félagið á nokkuð yfirfæranlegt tap sem nota skal fyrst á móti niðurfellingunni. Ef félagið ætti 50 millj. í yfirfæranlegt tap auk tap núverandi rekstrarárs næmi skattstofn félagsins 24,5 millj. ef um skilmálabreytingu væri að ræða. Niðurfelling í formi eftirgjafar skulda leiddi hins vegar til eingöngu 12,2 millj. skattstofnar.

Áhrif dóms Hæstaréttar

Þegar þetta er ritað er ekki ljóst hvaða áhrif dómur Hæstaréttar, í gengismálinu s.k., hefur á lánssamninga rekstraraðila. Slíkir samningar hafa enn ekki verið teknir fyrir hjá réttinum og ekki liggur fyrir skýr afstaða fjármögnunarfyrirtækja. Efnahags- og viðskiptaráðherra lýsti því yfir að von væri á lögum sem tækju á gengistryggðum lánum og hafa vangaveltur verið um hvort þau muni að einhverju leyti ná til samninga rekstraraðila. Við setningu og beitingu laganna þarf að huga að skattalegum áhrifum þeirra.

Hér er ekki verið að gagnrýna þau úrræði sem gripið hefur verið til, í þeim tilgangi leysa úr erfiðri stöðu íslensks efnahagslífs. Tilgangur þessrar greinar er að minna á að rekstraraðilar, ekki síður en löggjafinn, þurfa að gefa því gaum hvaða afleiðingar skuldaendurskipulagning hefur á skattskil. Hætt er við því að þær hagsbætur sem stefnt er að fari fyrir bí vegna skattgreiðslna morgundagsins.

Gunnar Egill Egilsson, hdl, 

Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi,