Faglegt efni
Forgangsmál fjármálaráðherra
Sértækir skattaafslættir til frumkvöðlafyrirtækja, sem gagnast fáum fyrirtækjum og eru háð þröngum skilyrðum, hafa lítið að segja þegar kraftur er um leið dreginn úr öllu atvinnulífinu. Skapa ætti almenna hvata til handa atvinnulífinu hvort sem fyrirtæki eru lítil eða stór. Mismunun í því formi að refsa hluthöfum sem starfa hjá eigin fyrirtækjum með hærri sköttum er ekki með neinu móti réttlætanleg heldur ætti einmitt að hvetja til stofnunar slíkra fyrirtækja.
Ef nýr fjármálaráðherra hyggst vinda ofan af neikvæðum skattabreytingum fyrri ríkisstjórnar þá ætti hann að byrja strax á því að afturkalla svokallaða 20/50% reglu Steingríms J. Sigfússonar og Indriða H. Þorlákssonar um skattlagningu arðs einkahlutafélaga til starfandi hluthafa. Um var að ræða eina verstu tæknibreytingu á skattalögum í lengri tíma og tímasetning hennar stuttu eftir efnahagshrun sérstaklega óheppileg. Reglan, sem hefur í för með sér óhóflega skattlagningu á arði til starfandi hluthafa, dregur ekki einungis úr krafti íslenskra atvinnurekenda, sem við treystum á að skapi störf og verðmæti, heldur hafði hún beinlínis þau áhrif að lækka tekjur ríkissjóðs. Frá því að reglan var sett á hafa smærri fyrirtæki nánast með öllu hætt að greiða út arð yfir settum mörkum reglunnar en án hennar hefðu slíkar arðgreiðslur skilað ríkissjóði 20% fjármagnstekjuskatti.
Á þessum tíma þegar mikilvægt var að virkja þann kraft sem býr í íslenskum frumkvöðlum og athafnafólki sendi fyrri ríkisstjórn atvinnulífinu þau skilaboð að hagnaður af rekstri fyrirtækja og fjárfesting í þeim ætti síst að njóta sérstöðu í skattheimtu ríkisvaldsins. Þar gleymdist rækilega hver það er sem tekur áhættu af rekstri fyrirtækjanna, skapar störfin og greiðir launin.
Sértækir skattaafslættir til frumkvöðlafyrirtækja, sem gagnast fáum fyrirtækjum og eru háð þröngum skilyrðum, hafa lítið að segja þegar kraftur er um leið dreginn úr öllu atvinnulífinu. Skapa ætti almenna hvata til handa atvinnulífinu hvort sem fyrirtæki eru lítil eða stór. Mismunun í því formi að refsa hluthöfum sem starfa hjá eigin fyrirtækjum með hærri sköttum er ekki með neinu móti réttlætanleg heldur ætti einmitt að hvetja til stofnunar slíkra fyrirtækja. Þau skapa störf fyrir fleiri og með fleiri fyrirtækjum skapast meiri verðmæti, m.a. í auknum útflutningi. Á tyllidögum hafa íslenskir stjórnmálamenn tamið sér að tala um mikilvægi frumkvöðla og nýsköpunar en þrátt fyrir þann stuðning, hið minnsta í orði, þá býr atvinnulíf hér á landi við fjölda takmarkana og hindrana í lagaumhverfinu sem eru með öllu óþarfar, þar ber ekki síst að nefna nýlegar breytingar á skatta- og hlutafélagalöggjöf.
Ein stærsta hindrunin er vitaskuld hin óásættanlegu gjaldeyrishöft sem virðist ólíklegt að leyst verði úr í bráð. Höftin ættu að vera enn frekari ástæða þess að búa íslenskum fyrirtækjum hagstæðar aðstæður og helst mun betri enn í nágrannalöndum okkar. Núverandi ástand gjaldeyrismála hefur í för með sér hvata fyrir þau fyrirtæki sem hér starfa og eiga þess kost að flytja starfsemi sína á erlenda grund. Við getum ekki haldið áfram að bíða eftir að útflutningur aukist með jákvæðum áhrifum á krónuna á meðan varnartæki krónunnar heldur aftur af útflutningi og beinir útflutningsfyrirtækjum til annarra landa með kerfisbundnum hætti. Þörf okkar fyrir skattalega hvata fyrir atvinnulífið er meiri en í nágrannalöndum okkar. Að lágmarki má gera þær kröfur að undið sé ofan af tæknibreytingum sem eru fjandsamleg atvinnulífinu ofan á gjaldeyrishaftaumhverfið.
Engin ástæða er til þess að bíða með að afnema 20/50% regluna. Það er hvorki flókið né erfitt og þarf ekki að bíða eftir niðurstöðu nefndar um heildarendurskoðun skattkerfisins enda hefði breytingin ekki í för með sér tekjulækkun fyrir ríkissjóð heldur líklegast tekjuaukningu. Þetta þarf því að gerast strax.