Faglegt efni

Nýsköpun og skattar

3.9.2013

Hjól íslenskrar nýsköpunar og frumkvöðlageirans hafa verið að taka við sér og hafa viðskiptabankar í auknum mæli komið að þeirri umgjörð. Hið opinbera getur einnig gert meira til að bæta almennt regluverk til að liðka slíka starfsemi, þá sérstaklega á sviði skatta- og félagaréttar. Fjölda dæma sýna að núverandi regluverk dragi úr svigrúmi og möguleikum fólks til að hefja og fjármagna rekstur, m.a. reglur um skattlagningu kaupréttar.

Á undanförnum misserum hefur vegur og virðing íslenska nýsköpunar og frumkvöðlageirans á verið að aukast jafnt og þétt. Sjá má að stórir aðilar á markaði, s.s. viðskiptabankarnir, hafa í auknum mæli verið að gera sig gildandi þegar kemur að umgjörð nýsköpunar með uppsetningu frumkvöðlasetra, með fjárstyrkjum o.frv. Þetta er ánægjuleg þróun og væri rökrétt næsta skref að lífeyrissjóðir tækju aukinn þátt í fjármögnun nýsköpunar enda vel þekkt erlendis að stórir stofnanafjárfestar setja tiltekið hlutfall eigna sinna í óhefðbundnar fjárfestingar (e. alternative asset class) en þar á meðal telst áhættufjármagn til nýsköpunar. Um leið og því ber að fagna að stærri einkarekin fyrirtæki hafa sýnt frumvæði að því að efla nýsköpun er eðlilegt að horfa til þess hvað hið opinbera getur gert til að bæta almennt regluverk, sérstaklega á sviði skatta- og félagaréttar, til þess að liðka fyrir starfsemi slíkra fyrirtækja hér á landi.

Upplag flestra frumkvöðlafyrirtækja er hliðstætt milli landa og því væri æskilegt að ríkið myndi horfa í auknum mæli til þess hvernig þau lönd sem standa fremst í nýsköpun hafa ákveðið að haga regluverki sínu. Ljóst er að hér á landi mætti færa margt til betri vegar. Því miður hefur þróunin hér á landi verið meira í þá átt að draga úr svigrúmi og möguleikum fólks til að hefja rekstur og er þess skemmst að minnast að á síðasta kjörtímabili komu fram hugmyndir um að hækka ákvæði um lágmarkshlutafé við stofnun fyrirtækja og aðrar hugmyndir af svipuðum toga sem áttu að draga úr svokölluðu kennitöluflakki - með þeim augljósu afleiðingu að leggja um leið stein í götu frumkvöðla.

Nefna má fjölda dæma þar sem íslensk löggjöf er beinlínis fjandsamleg frumkvöðlafyrirtækjum. Reglur um skattlagningu kaupréttar eru óþarflega óhagkvæmar og virðast hafa það að markmiðið að skattleggja einstaklinga áður en nokkur peningalegur hagnaður verður til. Horfa mætti til þess að notkun kauprétta er einn helsti gjaldmiðillinn sem nýsköpunarfyrirtæki í fjárþörf hafa til að laða til sín hæfileikaríkt starfsfólk auk þess markmiðið ætti að vera að hvetja sem flesta að láta til sín taka sem kaupréttir hafa augljóslega í för með sér. Reglur og dómaframkvæmd vegna vörsluskatta er mun strangari en þekkist í nágrannalöndum okkar og fælir fólk frá bæði stofnun fyrirtækja og stjórnarsetu í nýjum fyrirtækjum.  Mörg nýsköpunarfyrirtæki þurfa einmitt hvað helst öfluga stjórn á upphafstigum starfseminnar þar sem eldri og reyndari stjórnarmenn geta aðstoða frumkvöðla á fyrstu metrunum. Eitt einkennilegasta dæmið er svo bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga sem var sett á skömmu eftir efnahagshrunið 2008. Í ákvæðinu velst að umbreyting skuldar í hlutafé geti í vissum tilvikum verið tekjuskattsskylt hjá félaginu. Í eðli sínu er hlutafé skuld og því í raun eingöngu verið að færa til kröfur í skuldaröð þar sem ólíkir skilmálar gilda. Að slík breyting sé tekjur hjá félögum er í fráleitt enda má sjá að viðkomandi kröfuhafi gæti lagt félaginu til nýtt hlutafé til að greiða upp skuldina og myndast þá engin tekjuskattskylda. Vegna ákvæða laga um gjaldþrotaskipti er slík aðferðafræði hins vegar óheppileg. Ákvæðið er sérstaklega bagalegt fyrir nýsköpunarfyrirtæki þar sem ein hentugasta leið fjárfesta og frumkvöðuls til að brúa bilið milli ólíkra verðhugmynda þeirra er að notast við skuldabréf sem hægt er að breyta í hlutafé á síðari stigum. 

Fræg er sagan af því þegar Peter Thiel (einn stofnenda PayPal) gerðist einn af fyrstu fjárfestunum í Facebook. Mark Zuckerberger og Peter höfðu tekist nokkuð á um verðmat félagsins en Facebook hafði á þeim tíma nokkur hundruð þúsund notendur, engar tekjur og enga hugmynd en sem komið var hvernig hægt væri að búa til pening úr þeim gagnagrunni notenda sem Facebook var að verða. Peter og Mark voru þó sammála um að það hlyti að verða tækifæri til þess ef Facebook yrði meiriháttar samskiptasíða með milljónir notenda. Lausnin fólst í umbreytanlegu skuldabréfi. Peter lagði Facebook til 500 þúsund dollara og skyldi skuldabréfinu umbreytt í hlutafé nokkrum mánuðum síðar. Gengi bréfanna við umbreytingu var tengt við hver fjöldi notenda Facebook yrði á tilteknu tímamarki. Eftir því sem notendurnir væru fleiri fengi Peter minni hlut í Facebook enda þá ljóst að félagið væri verðmætara eftir því sem notendurnir væru fleiri. Skemmst er frá því að segja að notendurnir urðu margfalt fleiri en bæði Peter og Mark höfðu gert sér í hugarlund en báðir aðilar gátu unað sáttir við niðurstöðuna. Frumkvöðulinn Mark hafði afhent minni hluta af félaginu en Peter átti hlut í félagi sem hafði margfaldað möguleika sína á því að verða farsælt. 

Regluverk hins opinbera skiptir verulegu máli þegar kemur að því að gera nýsköpunarfyrirtækjum kleift að leita lausna við að fjármagna rekstur sinn. Það væri við hæfi að við endurskoðun skattkerfisins verði sérstaklega litið til hagsmuna þeirra. Setjum upp hvetjandi skattkerfi sem eykur tekjur til langtíma en hættum að setja og viðhalda letjandi reglum sem engu skila til skamms- eða langtíma.