Faglegt efni
Er aflétting kvaðar skattskyld hlunnindi?
Í dómi Hæstaréttar nr. 626/2010 var tekist á um það hvort starfsmaður gæti talist hafa notið skattskyldra hlunninda frá vinnuveitanda sínum vegna kaupsamnings þeirra á milli er varðaði kaup og sölu hlutabréfa í vinnuveitandanum. Hafnaði Hæstiréttur beitingu ríkisskattstjóra á raunveruleikareglunni og taldi að líta bæri til orðalags kaupsamningsins og hvort stafsmaðurinn hefði samkvæmt honum hlotið starfstengd hlunnindi.
Upp hefur komið álitamál sem tengist dómi Hæstaréttar frá 31. mars sl., nr. 626/2010, þar sem fjallað er um skattlagningu söluréttar fyrrverandi bankastarfsmanns, og fordæmisgildi hans.
Annar undirritaðra svaraði spurningum fréttamanns RÚV um fyrrgreindan dóm á dögunum og leiddi það m.a. til þess að vefmiðillinn Eyjan tók sig til og afbakaði það sem raunverulega kom fram í viðtalinu. Á Eyjunni var m.a. ranglega haft eftir undirrituðum að ríkisskattstjóri þyrfti að læra grundvallaratriði í skattheimtu. Undirritaður lét slík ummæli aldrei falla og þykir miður að snúið sé svo úr orðum hans og þau notuð sem gífuryrði í öðrum fréttaflutningi. Þess í stað vilja undirritaðir fjalla um málið á faglegum grunni og koma á framfæri upplýsingum sem flókið getur reynst að miðla skilmerkilega þegar stuttum spurningum fréttamanna er svarað.
Umræddur dómur Hæstaréttar fjallaði um það hvort starfsmaður gæti talist hafa notið skattskyldra hlunninda frá vinnuveitanda sínum vegna samninga milli starfsmannsins og vinnuveitandans sem vörðuðu kaup og sölu hlutabréfa í hinum síðarnefnda. Við mat á því hvort skattskyld hlunnindi séu til staðar er lykilatriði hvort starfsmaður hafi notið einhvers konar gæða sem meta megi til fjár.
Samningarnir fólu í sér kaup á hlutabréfum í vinnuveitandanum þar sem starfsmaðurinn var kaupandi en seljandi var vinnuveitandi hans. Starfsmaðurinn fékk lánað fyrir kaupunum og átti rétt á að selja (söluréttur) hlutabréfin aftur síðar til vinnuveitandans á upprunalegu kaupverði að viðbættum vöxtum og álagi. Þannig var starfsmaðurinn tryggður gegn tapi ef hlutabréfin lækkuðu í verði. Á móti átti vinnuveitandinn rétt á að kaupa (kaupréttur) hlutabréfin af starfsmanninum ef hann hætti störfum hjá vinnuveitandanum innan ákveðins tíma. Auk þessa var starfsmanni óheimilt að selja hlutabréfin á þessu sama tímabili nema með heimild vinnuveitandans. Þannig var kvöð á hlutabréfaeign starfsmannsins umfram venjulegt eignarhald á hlutabréfum.
Ríkisskattstjóri vildi beita svokallaðri raunveruleikareglu þannig að horft væri framhjá beinu orðalagi ofangreindra samninga eða formi viðskiptanna. Hann taldi að í raun væri um að ræða kaupréttarsamning og að starfsmaðurinn hafi ekki eignast hlutabréfin fyrr en ljóst var hvort sölurétturinn yrði nýttur. Á þeim tímapunkti hefði starfsmaðurinn ákveðið hvort hann vildi eignast bréfin eða skila þeim aftur með því að nýta söluréttinn. Ríkisskattstjóri hafði því úrskurðað að mismunur á markaðsverði og upprunalegu kaupverði á þeim tímapunkti yrði skattlagður sem laun hjá starfsmanninum. Lykilatriðið í því væri þá að starfsmaðurinn fengi að kaupa hlutabréf á lægra verði en markaðsverði af því að hann er starfsmaður félagsins.
Hæstiréttur hafnaði þessari beitingu raunveruleikareglunnar enda væri ekki hægt að horfa framhjá samningunum eins og þeir voru gerðir. Starfsmaðurinn hefði í raun eignast bréfin strax við kaupin og því þyrfti að skoða hvort hann hefði hlotið einhver starfstengd hlunnindi miðað við fyrirliggjandi samning, þ.e:
- Hvort starfsmaðurinn nýtti söluréttinn og hafði af því hagnað eða;
- hvort starfsmaðurinn hafði af því skattskyldar tekjur að losna undan viðjum kaupréttar vinnuveitandans, þ.e.a.s. þess að vinnuveitandinn gat keypt hlutabréfin af honum innan ákveðins tíma á upprunalegu kaupverði ef hann hætti störfum.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að starfsmaðurinn hafði þegar upp var staðið engan fjárhagslegan ávinning af söluréttinum annan en þann að hafa ekki þurft að stofna til útgjalda til að tryggja sig á samsvarandi hátt fyrir hugsanlegri verðlækkun hlutabréfanna. Hefði sölurétturinn hins vegar verið nýttur hefði starfsmaðurinn haft þann ávinning að bera ekki tjón af verðlækkun hlutabréfanna. Hæstiréttur svarar þeirri spurningu ekki með afgerandi hætti hvort þau gæði sem fólust í að veita starfsmanni endurgjaldslaust afleiðu (söluréttinn) sem fól í sér tryggingu fyrir tapi af hlutabréfunum geti talist til skattskyldra hlunninda. Skýrt kemur hins vegar fram að starfsmaðurinn hafi ekki haft neinn fjárhagslegan ávinning af söluréttinum enda var hann aldrei nýttur.
Seinna atriðið er nokkuð snúið þegar litið er til þess að grundvallaratriði er hvort starfsmaðurinn hefur fengið í sinn hlut skattskyld hlunnindi, þ.e. gæði sem meta má til fjár. Að losna undan kvöð sem starfsmaður tekur á sig án þess að fá verðmæti í staðinn getur varla talist til gæða og þ.a.l. skattskyldra hlunninda. Ekki er hægt að horfa á þetta atriði sjálfstætt án þess að heildarsamhengi samninganna sé tekið með í reikninginn, þ.m.t. þá forsendu Hæstaréttar að starfsmaðurinn eignaðist hlutabréfin strax við kaupsamning. Starfsmaðurinn hlýtur að hafa tekið á sig kvöð um kauprétt vinnuveitanda síns af því að hann fékk sölurétt á móti. Skattlagning niðurfellingar á slíkri kvöð væri andstæð grundvallaratriðum í skattheimtu enda þyrftu menn þá að fara afar varlega í að veita loforð. Líkja mætti þessari aðstöðu við að maður sem hefði gengist í ábyrgð fyrir láni, án þess að fá í hendur nein verðmæti, þyrfti að greiða tekjuskatt af niðurfellingu ábyrgðarinnar. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að ef vinnuveitandinn hefði ekki lagt sérstaka kvöð á hendur starfsmanninum þá væri skv. niðurstöðu Hæstaréttar ekki fyrir hendi neitt tilefni til skattlagningar enda sölurétturinn ekki nýttur.
Að mati undirritaðra getur því ekki að komið til skattlagningar á þeim grundvelli að starfsmaður hafi verið leystur undan sölukvöð (kauprétti vinnuveitanda) líkt og Hæstiréttur kann að gefa til kynna.