Faglegt efni

Réttlæti og rimlagjöld

27.2.2014

Lengi hafa stjórnarmenn í íslenskum félögum haft af því áhyggjur að þeir kunni að verða dæmdir sekir fyrir refsivert brot vegna þess að starfsmenn viðkomandi félags skili ekki virðisaukaskatti eða staðgreiðslu skatta af launum. Íslenska kerfið hefur nefnilega verið nokkuð miskunnarlaust gagnvart stjórnarmönnum í slíkum tilvikum, því ef þeim láðist að átta sig á þessu þá hefur þeim jafnan verið refsað með gríðarháum sektum, samfélagsþjónustu eða fangelsisvist.

Hefur þessi refsiábyrgð stjórnarmanna oft og tíðum jaðrað við hlutlæga ábyrgð þannig að ekkert tillit var tekið til þess hvort stjórnarmennirnir höfðu með aðgerðum sínum átt sök á þessum vanskilum á vörslusköttum.

Með nýlegum dómum Hæstaréttar frá 12. desember 2013 og 23. janúar 2014 virðist Hæstiréttur hafa tekið skref í þá átt að snúa þessari framkvæmd inn á aðra braut. Þetta verður að telja jákvætt skref þannig að refsiábyrgðin á þessu sviði sé í betri tengslum við réttlætiskennd samfélagsins og raunverulegar athafnir eða vanrækslu viðkomandi stjórnarmanna.

Í fyrra málinu þótti sannað að hinir ákærðu hefðu ekkert komið að fjármálum félags, þrátt fyrir að hafa tekið sæti í stjórn þess. Sýnt var fram á að framkvæmdastjóri félagsins hefði annast öll fjármál þess og skattskil. Voru viðkomandi stjórnarmenn því sýknaðir af ákæru um að hafa staðið að vanskilum á vörslusköttum félagsins. Í síðarnefnda málinu taldi Hæstiréttur að hinn ákærði, sem var stjórnarformaður félags, gæti ekki borið refsiábyrgð á vanskilum í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um verkaskiptingu milli hans og framkvæmdastjóra félagsins.

Af ofangreindum dómum má ráða að Hæstiréttur telur að refsiábyrgð verði að hvíla á þeim sem tekur ákvörðun um að ráðstafa vörslusköttum í annað en að skila þeim til ríkisins en ekki á grandlausum stjórnarmönnum, þó að þeir beri ákveðna eftirlitsskyldu skv. lögum.

Sú réttmæta spurning hlýtur að vakna í hvaða stöðu þeir eru, sem dæmdir eða úrskurðaðir hafa verið til greiðslu sekta skv. eldri dómaframkvæmd, þrátt fyrir að hafa haldið fram málsbótum sem lutu að verka- og ábyrgðarskiptingu innan félagsins. Í fyrri tíð var slíkum málbótum lítill sem enginn gaumur gefinn og vart rannsakaðar af hálfu yfirvalda.

Réttur til bóta?

Sektarrefsingar í þessum vanskilamálum eru á bilinu tvöföld til tíföld fjárhæð vangoldins skatts, allt eftir alvarleika brotsins. Eins og gefur að skilja eru þeir sem dæmdir hafa verið til greiðslu slíkra fjárhæðar oft ekki borgunarmenn slíkra sekta, enda hefðu þeir væntanlega þá þegar verið búnir að greiða hinn vangoldna skatt, til að koma sér hjá refsingu. Hafa þessir aðilar því alla jafnan sætt vararefsingu ýmist með fangelsisvist eða samfélagsþjónustu.

Það er umhugsunarefni hvort þeir einstaklingar sitja uppi með refsingar sínar þó að fyrir liggi að málsatvik sem horfa til sýknu þeirra hafi ekki einu sinni verið rannsökuð af hálfu yfirvalda. Kann að vera að viðkomandi eigi kröfur á hendur ríkinu til greiðslu bóta, ef sýnt þykir að þeir hafi sætt refsingu að ósekju?

Þessu til viðbótar mætti einnig huga frekar að því lagaumhverfi sem íslensk félög búa við í ljósi fjölda sakamála á þessu sviði. Ef fyrir liggur að mikill fjöldi fyrirtækja, þó oftast smærri félög, skilar ekki vörslusköttum þegar illa fer að ganga er hugsanlega eitthvað sem mætti laga til þess að koma í veg fyrir svo haldi áfram út í hið óendanlega. Slík fyrirtæki eru sett í þá stöðu að innheimta skatta fyrir hið opinbera og skila þeim að ákveðnum tíma liðnum. Þó er ekki gerð sérstök krafa um að þessum vörslusköttum sé haldið aðgreindum frá öðrum fjármunum félagsins og nánast gert ráð fyrir því að peningarnir séu notaðir til að veltufjármagna daglegan rekstur. Ef síðan ófyrirséðir atburðir valda því að halla fer undan fæti í rekstri félaganna og ekki er til peningur til að greiða á næsta gjalddaga virðisaukaskatts þá er farið með þau vanskil eins og fjármunum hafi verið stolið.

Hér er ekki verið að mælast til þess að linkind sé sýnd þeim sem hafa dregið sér fé á kostnað ríkissjóðs eða annarra sem hagsmuna eiga að gæta. Hér er fyrst og fremst verið að vekja máls á því, vegna þess fjölda einstaklinga og félaga sem eiga í hlut í þessum málum, að mögulega er kominn tími til að endurskoða þetta fyrirkomulag og fækka þessum málum. Ætla má að með því móti geti eigendur fyrirtækja átt greiðari leið að því að ráða hæfari stjórnendur sem og að greina þá starfsmenn og stjórnendur sem síður ætti að vera falin sú ábyrgð að sýsla með vörslufjármuni fyrirtækja