Faglegt efni

Ógnvægileg þróun gjaldeyrishaftanna

6.6.2012

Aðgengi stjórnvalda að þeim rannsóknarúrræðum sem ganga hvað næst friðhelgi einkalífsins, símhlerunum og húsleitarheimildum, virðast svo til engin takmörk sett og raunar í litlu samræmi við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við.

Þegar gjaldeyrishöft voru sett á hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins í vetrarbyrjun 2008 í formi reglna Seðlabanka Íslands urðu ófáir til að vara við langtímaáhrifum þeirra á hagkerfið og að eðli slíkra hafta væri að þrengja stöðugt meira að athafnafrelsi borgaranna. Flest bendir til að þessir aðilar hafi þegar reynst sannspáir. Upphaflega áttu höftin aðeins að vara í skamman tíma og var raunar boðað að þau yrðu endurskoðuð strax 1. mars 2009. Engin teikn eru nú á lofti um að þau verði afnumin í bráð og virðast sárafáir gera ráð fyrir að þeim verði aflétt 31. desember 2013 eins og núverandi lög gera ráð fyrir. Frá upphaflegri setningu haftanna hafa þau reglulega verið framlengd og hert, í nokkrum tilvikum meira að segja undir því yfirskini að verið væri að rýmka reglurnar. Svo allrar sanngirni sé gætt er ljóst að gera hefur þurft ýmsar nauðsynlegar breytingar á höftunum eftir því sem reynsla á framkvæmd þeirra hefur aukist og komið hafa í ljós ágallar sem stríða sannarlega gegn markmiðum haftanna. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að síðasta herðing haftanna, sem gerð var í skyndi þann 12. mars s.l., var verulega ámælisverð og til þess fallin að styrkja trú fjárfesta að hér á landi ríki óstöðugt og ófyrirsjáanlegt lagaumhverfi og að viðhorf stjórnvalda sé almennt fjandsamlegt fjárfestum.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um frekari breytingar á gjaldeyrishöftunum. Breytingarnar fela m.a. í sér, ásamt ýmsum rýmkuðum heimildum vegna minniháttar gjaldeyrisflutninga, að sektir vegna brota eru hækkaðar verulega auk þess sem Seðlabankanum er veitt nánast takmarkalaus heimild til upplýsingaöflunar. Deila má um nauðsyn þess að sektir séu meira en þrefaldaðar í einni svipan en staldra verður þó sérstaklega við nýjar og auknar eftirlitsheimildir Seðlabankans.

Með áætlaðri breytingu á eftirlitsheimild Seðlabankans getur bankinn safnað nánast hvaða upplýsingum sem er um einstaklinga og fyrirtæki, frá hverjum sem er, hvort sem þær upplýsingar tengjast gjaldeyrisviðskiptum eða ekki og algjörlega óháð því hvort um þær gildi þagnarskylda. Ekki er einu sinni skilyrði að fyrir liggi grunur um brot á gjaldeyrishöftunum. Heimildin er svo víðtæk að Persónuvernd lét þess getið í umsögn sinni að óvíst væri að fyrirhugaðar breytingar stæðust ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um friðhelgi einkalífs og að það væri verðugt umhugsunarefni hvort upplýsingaöflun Seðlabankans samræmdist sjónarmiðum um einkalífsrétt í lýðræðisríki.

Sú óheillaþróun að stöðugt sé gengið á friðhelgi einkalífs í nafni rannsókna á meintum efnahagsbrotum útskýrist m.a. af umfangi efnahagshrunsins hér á landi og mun vonandi ganga að einhverju leyti til baka í framtíðinni. Aðgengi stjórnvalda að þeim rannsóknarúrræðum sem ganga hvað næst friðhelgi einkalífsins, símhlerunum og húsleitarheimildum, virðast svo til engin takmörk sett og raunar í litlu samræmi við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við. Fyrirhuguð breyting eftirlitsheimildum Seðlabankans er því miður enn einn anginn af þessari þróun og virðist því miður hægt að rökstyðja hvers kyns aukningu á eftirliti með vísan til hættu á brotastarfsemi. Alltof sjaldan virðist litið til réttinda alls þess fjölda sem þarft að sæta eftirlitinu og hefur engin brot framið.

Ekki verður deilt um mikilvægi þess að Seðlabankinn sinni lögbundnu eftirlitshlutverki sínu en spurningin hlýtur að vera hvort eitthvað bendi til þess að brot á gjaldeyrishöftunum séu af slíku umfangi að rétt sé að færa ríkisstofnun nánast ótakmarkaðar heimildir til eftirlits með þegnum þessa lands og þar með ganga þvert gegn markmiðum ákvæða stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs.