Faglegt efni

Hvað er meðalhóf?

11.7.2012

Meðalhófsreglan felur ekki eingöngu í sér lagareglu fyrir stjórnvöld heldur er hún einnig góður vegvísir fyrir stjórnvöld í samskiptum við borgarana. Í því sambandi má nefna sérstaklega að fjöldi hlerana og húsleita, sem framkvæmdar eru með sérkennilega reglulegum hætti hjá helstu fyrirtækjum landsins, hlýtur annað hvort að þýða verulegt vandamál í almennri löghlýðni landsmanna eða að yfirvöld eru að ganga of langt miðað við tilefni.

Oft er rætt og ritað með hátíðlegum hætti um mikilvægi þess að opinberar stofnanir virði almennar reglur og nauðsyn gagnsæis og upplýsingagjafar, en því miður reynist oft reynist langt á milli orða og efnda.

Athyglisvert er að skoða í þessu ljósi hina svonefndu meðalhófsreglu stjórnsýslulaga í samhengi við nýleg skatta- og gjaldeyrismál. Reglan kveður á um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Ætla má að ef reglunni er fylgt af samviskusemi þá mætti komast hjá því að stofnanir kæmust ekki að niðurstöðu sem er bersýnilega ósanngjörn fyrir borgarann. Þarna ætti heilbrigð skynsemi mannsins að nýtast enda hverjum manni ljóst að niðurstaða í málum er oft byggð á mannlegu mati þeirra embættismanna sem taka ákvörðun þannig að niðurstaðan blasir ekki við.

Nefna má nýlegt dæmi úr viðskiptalífinu þar sem skattyfirvöld hafa neitað að líta til meðalhófs:

Smiður rekur einkahlutafélag utan um smíðavinnu sína. Í lok árs 2010 má ráða af bókhaldi félagsins að félagið skilar nokkrum hagnaði í fyrsta skiptið í nokkur ár. Smiðurinn er því bráðlátur og ákveður þann 30. desember 2010 að úthluta sér arði sem nemur 80% af hagnaði félagsins en skilur 20% eftir til frekari uppbyggingar. Þrátt fyrir þetta greiðir hann arðinn ekki út af reikningi félagsins fyrr en 5. febrúar 2011. Eins og gengur og gerist þá er síðan ársreikningi og framtali skilað 10. september 2011 enda lá ekki á að klára það formlega fyrr.  

Eftir að ársreikningur og framtal liggja fyrir þá gerir ríkisskattstjóri athugasemdir við arðsúthlunina þar sem ekki lá fyrir formlega samþykktur ársreikningur þegar arðsúthlutunin var ákveðin og vísar í 74. gr. laga um einkahlutafélög máli sínu til stuðnings. Smiðurinn bendir á að í raun hafi félagið haft efni á arðgreiðslunni auk þess sem greiðslan sem slík fór ekki fram fyrr en 5. febrúar 2011 og þá lá fyrir hver rekstrarniðurstaða ársins 2010 var. Ekki er því i raun um neitt brot á efnisreglu að ræða. Munurinn liggur í því að annars vegar ber smiðnum að greiða 20% fjármagnstekjuskatt en hins vegar 37-46% tekjuskatt af greiðslunni úr félaginu. Til viðbótar greiðir félagið 8,65% tryggingagjald af greiðslunni í seinna tilvikinu (2010).

Ætla má að með beitingu meðalhófsreglunnar yrði horft til þess hvenær arðurinn var raunverulega greiddur út úr félaginu og litið til þess að formleg undirskrift á ársreikning einkahlutafélags eins manns í september frekar en í febrúar ætti ekki að hafa úrslitaáhrif um svo mikilvægt atriði fyrir skattgreiðandann.

Tekið skal fram að um er að ræða tilbúið dæmi með hliðsjón af raunverulegum málum sem skattyfirvöld hafa rekið sl. 2-3 ár gegn gríðarlegum fjölda smærri fyrirtækja. Slík mál eru mismunandi í eðli sínu en sum hver þannig að einungis virðist litið á form umfram efni.

Í dæmum líkt og hér að framan verðum við að gera þær kröfur að embættismenn sýni sanngirni í stað þess að reka skattgreiðendur jafnvel í greiðsluerfiðleika með einstakri óbilgirni. Sérstaklega er athyglisvert að skattyfirvöld virðast eingöngu beita svokallaðri raunveruleikareglu þegar hún leiðir til óhagstæðrar niðurstöðu fyrir skattgreiðanda.

Meðalhófsreglan felur þó ekki eingöngu í sér lagareglu fyrir stjórnvöld heldur er hún einnig góður vegvísir fyrir stjórnvöld í samskiptum við borgarana. Í því sambandi má nefna sérstaklega að fjöldi hlerana og húsleita, sem framkvæmdar eru með sérkennilega reglulegum hætti hjá helstu fyrirtækjum landsins, hlýtur annað hvort að þýða verulegt vandamál í almennri löghlýðni landsmanna eða að yfirvöld eru að ganga of langt miðað við tilefni. Af upplýsingum sem fyrir liggja í mörgum af þessum málum þá er það mat undirritaðra að tilefnið sé oft afar hæpið. Lög og reglur um gjaldeyrishöft hafa skapað nýja vídd í aðgerðum eftirlitsstofnana. Sú staða hefur komið upp að um leið og alþjóðleg viðskipti bera á góma er viðkomandi jafnvel grunaður um refsiverð brot gegn lögum um gjaldeyrismál. Þegar menn eiga á hættu að vera handteknir fyrir litlar eða engar sakir og um það jafnvel haldinn blaðamannafundur þá er oft eins og meðalhófsreglan hafi verið afnumin úr lögum.

Fara verður fram á að íslenskar eftirlitsstofnanir fari aftur að gæta að meðalhófi. Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað frá hruni er því miður borin von að slíkt gerist án aðkomu löggjafarvaldsins. Tími er kominn til að bæta stöðu borgaranna gegn hinum ýmsu eftirlitsstofnunum en það er ekki síður mikilvægt en að bæta stöðugt við boðum, bönnum og refsiaðgerðum.