Faglegt efni

Nýsköpun: Kaupréttir nú raunhæfur kostur

9.7.2016

Í lok síðustu viku samþykkti Alþingi ýmsar breytingar á tekjuskattslögum, sem miða að því að styðja við fjármögn­un og rekst­ur nýsköp­un­ar­fyr­ir­tækja og smærri fyr­ir­tækja í vexti. Um ýmsar breytingar er að ræða og má þar nefna, skattalega ívilnun til erlendra sérfræðinga, frádrátt vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja, skattafslátt vegna hlutabréfakaupa og síðast en ekki síst skattlagningu kauprétta, sem starfsmaður eignast samkvæmt kauprétti vegna starfa sinna fyrir annan aðila.

 

Kaupréttir geta verið mjög árangursríkt tæki fyrir nýsköpunarfyrirtæki, sem hafa úr litlu fjármagni að moða. Með innleiðingu kauprétta geta stjórnendur nýsköpunarfyrirtækja laðað til sín hæft starfsfólk, þrátt fyrir að hafa ekki fjárhagslega burði til þess að greiða þeim há laun. Hlutur í félaginu sem viðkomandi starfsmönnum gæfist kostur á að eignast, kemur þá sem launauppbót til starfsmanna, til þess að hífa þá í átt að markaðslaunum.

Þetta getur því verið hagfelldur samningur þegar eigendur og starfsmenn deila trú og sýn á framtíðarmöguleika þeirrar nýsköpunar sem unnið er að.

Í gegnum tíðina hefur sú regla verið við lýði að starfsmenn greiði tekjuskatt við innlausn starfstengdra kauprétta, rétt eins og af öðrum starfstengdum hlunnindum. Miðast skattskyldar tekjur við mismun á kaupréttargengi og markaðsgengi þegar kaupréttur er nýttur. Kemur þannig til skattskyldu óháð því hvort starfsmaður hafi fengið nokkra fjármuni í hendur, þó hann hafi vissulega fengið verðmæti í formi hlutabréfa á hagfelldum kjörum.

Það hefur því oft reynst erfitt að nýta fyrirkomulag kauprétta, þar sem það gat reynst starfsmönnum erfitt að fjármagna greiðslu tekjuskattsins við innlausn þeirra. Átti þetta ekki hvað síst við í nýsköpunarfyrirtækjum, þar sem laun eru oft undir markaðskjörum, því viðkomandi starfsmaður þarf jafnframt að fjármagna kaupverð hlutabréfanna þegar hann nýtir kaupréttinn.

En nú hefur verið gerð verulega breyting til batnaðar, sem gera kauprétti að mun raunhæfari kosti en áður. Breytingar, sem taka gildi vegna tekna ársins 2016, breyta ekki hinni almennu reglu, að nýting kaupréttar myndar tekjuskattskyldu. Hins vegar frestast skattlagning þangað til að hlutabréfin eru seld. Hafi hlutabréfin aukið verðgildi sitt frekar, eftir að kaupréttur var nýttur, telst sá hagnaður til fjármagnstekna.

Þannig getur komið til greiðslu tekjuskatts og fjármagnstekjuskatts þegar hlutabréfin eru seld. En ekki má þó gleyma því að hlutabréfaviðskiptum fylgir alltaf áhætta, sér í lagi þegar um er að ræða fjárfestingu í nýsköpunarfyrirtækjum. Þannig kunna hlutabréfin að verða seld með tapi síðar, en það breytir því ekki að upphafleg skattskylda vegna hinna starfstengdu hlunninda raknar við, við þá sölu, þrátt fyrir tapið.

Heilt yfir verða þær lagabreytingar sem samþykktar voru með þessu nýja frumvarpi að teljast jákvætt skref fyrir íslenska nýsköpun.