Virðisaukaskattur af aðkeyptri þjónustu erlendis frá

Slitabú Glitnis greiddi 1,8 milljarð á dögunum

Aðilar utan virðisaukaskattskyldu hafa margir hverjir fengið erindi frá RSK vegna virðisaukaskatts af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Um verulegar fjárhæðir að tefla.

Hún vakti nokkra athygli fréttin sem birtist í Viðskiptablaðinu á dögunum um að Glitnir hefði greitt 1,8 milljarð til ríkisins sem virðisaukaskatt af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. 

Af fjárhæðinni má reikna hversu mikið Glitnir hefur að lágmarki eytt í aðkeypta þjónustu erlendis frá. Dæmi eru um að þegar aðkeypt þjónusta og rekstrarkostnaður aðila nemur þvílíkum fjárhæðum að það hafi leitt til skattrannsóknar hjá viðkomandi aðila. 

Það sem vekur ekki síður athygli er að fram kemur í fréttinni að veruleg óvissa ríki um túlkun á virðisaukaskattsreglum að þessu leyti. Að sjálfsögðu er það ótækt ástand og nauðsynlegt að yfirvöld axli þá ábyrgð að setja fram skýrar reglur og jafnframt leiðbeiningar og túlkanir á reglunum. 

Lögmenn Nordik hafa komið að allnokkrum málum er varða virðisaukaskatt af aðkeyptri þjónustu erlendra aðila og það verður að segjast eins og er að erfitt er að ná utan um málin vegna breytinga á túlkun yfirvalda á viðfangsefninu og misvísandi úrlausna embætta í skattkerfinu. 

Rétt er að taka fram að það eru einungis aðilar sem ekki eru virðisaukaskattskyldir sem þurfa að huga að því að skila virðisaukaskatti af aðkeyptri þjónustu erlendra aðila, t.d. fjármálafyrirtæki, tryggingarfélög, fjárfestingar- og eignarhaldsfélög sem starfa utan skattskyldusviðs virðisaukaskattskerfisins.